Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort við getum notað nafnið samvinnubanki þar sem það hefur verið notað áður en ég skil hvað hv. þingmaður er að fara og tek undir þau markmið sem hann lýsir. En það þarf að hafa það í huga hvað varðar þessi markmið og réttmæti þeirra að bankastarfsemi er á margan hátt ólík annarri starfsemi í einkarekstri fyrirtækja. Bankar hafa í raun leyfi til að prenta peninga og fyrir vikið er eðlilegt að stjórnvöld geri til þeirra meiri og aðrar kröfur heldur en annarra fyrirtækja í einkarekstri. Það er hins vegar mjög erfitt að stofna banka. Það hafa verið gerðar tilraunir hér á landi á undanförnum árum setja af stað nýjan banka með einhverju slíku formi eins og hv. þingmaður vísar til, en það er af mörgum ástæðum erfitt. Hins vegar var hér til staðar, eins og ég nefndi áðan, og er að einhverju leyti enn alveg einstök staða sem kom ekki til af sjálfu sér. Hún kom til eftir áralangan slag og aðgerðir sem hafði hvergi verið ráðist í áður, með aðferðum sem hafa ekki verið notaðar annars staðar, en skilaði því að ríkið náði fyrir hönd almennings yfirráðum í öllum stóru bönkunum. Það gaf tækifæri fyrir ríkjandi stjórnvöld að endurskipuleggja kerfið. Þetta tækifæri hefur ekki verið nýtt og þess vegna gremst manni að sjá að enn sé haldið áfram á þessari braut einkavæðingar án þess, að því er virðist, tilraunar til að nýta um leið þetta tækifæri til að búa til betra fjármálakerfi og þá banka sem við getum kallað samvinnubanka eða samfélagsbanka eða hvað annað, (Forseti hringir.) en a.m.k. banka sem hefur það hlutverk að gera kerfið betra.