Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:10]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Einn af fyrstu stjórnarmönnum Hagsmunasamtaka heimilanna, Marinó G. Njálsson, velti því nýlega fyrir sér á Facebook hvernig illa heppnað útboð á hlutabréfum Bankasýslunnar í Íslandsbanka hefði litið út og datt þetta helst í hug: Þar væru spákaupmenn sem ætluðu bara að ná sér í skyndigróða. Talsverður hluti kaupenda hefði engan áhuga á að eiga í bankanum til lengri tíma en örfárra daga. Talsverður hluti kaupenda gæti ekki talist til hæfra fjárfesta. Talsverður hluti kaupenda gæti ekki talist til fagfjárfesta. Talsverður hluti kaupenda hefði ekki fjárhagslegan styrk til að eiga bréfin nema í nokkra daga. Meðal kaupenda væru aðilar sem eru umdeildir og með dóm á bakinu fyrir efnahagsbrot. Talsverður hluti kaupenda hefði tekið þátt í síðasta útboði og selt bréf sín innan nokkurra vikna. Söluráðgjafar og söluaðilar væru meðal kaupenda. Lítil eftirspurn væri eftir bréfunum og erfitt hefði verið að losna við þau á markaðsverði. Reglur útboðsins hefðu verið óskýrar og annað gefið í skyn en var reyndin. Val á þátttakendum var handahófskennt og lyktaði af spillingu. Mikil óánægja myndi skapast í samfélaginu með framkvæmd útboðsins. Stór hluti kaupenda hafi verið litlir fjárfestar, óhófleg þóknun til söluaðila og lítil reynsla kaupenda af rekstri eða hæfir til að vera virkir eigendur banka.

Þegar þessi góði listi er borinn saman við niðurstöður útboðsins þá er greinilegt að þetta útboð var bara alveg einstaklega vel heppnað í því að vera illa heppnað. Það hefði eiginlega ekki getað verið verr heppnað fyrir utan eitt atriði: Það var mikil umframeftirspurn. Og til að tryggja jafnræði vanhæfra kaupenda fengu sumir kaupendur ekki að kaupa á markaðsverði þrátt fyrir að hafa sett fram slík tilboð.

Framkvæmdin á þessu er með slíkum ólíkindum að það er erfitt að ímynda sér að verr hefði getað farið. Einhver þarf að svara fyrir það. Það er ljóst að Bankasýslan sýndi fram á fádæma vanhæfi, svo ekki sé fastar að orði kveðið og ég styð heils hugar að hún verði lögð niður með þeim hætti að engin hætta sé á að hún gangi nokkurn tímann aftur. En að því sögðu er engu að síður ljóst að ábyrgðin liggur hjá fjármálaráðherra eða jafnvel ríkisstjórninni allri. Hvorki ríkisstjórnin né fjármálaráðherra geta skorast undan henni.

Í óundirbúnum fyrirspurnum fyrr í dag kom ég inn á þann bergmálshelli sem virðist umlykja alla þá sem koma að ákvörðunum fjármála á Íslandi, hvort sem er innan ríkisstjórnarinnar eða í fjármálaráðuneytinu sem virðast eingöngu hlusta á sjónarmið markaðarins og fjármagnseigenda um mikilvægi einkavæðingar og hvaðeina annað sem snertir viðskipti á fjármálamarkaði. Þannig virðast hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja, SFF, hafa beina línu inn í fjármálaráðuneytið á meðan Hagsmunasamtök heimilanna, sem eru einu aðilarnir sem gæta réttinda neytenda á fjármálamarkaði og í bankaviðskiptum, hafa ekki þennan aðgang og að almennt sé lítið eða ekkert tekið tillit til sjónarmiða þeirra. Yfir 80% landsmanna eru á móti sölu ríkisins á eignarhlut þess í bönkunum. Kjörnum fulltrúum ber að virða vilja þjóðarinnar sem lítill vafi virðist leika á.

Í opnu bréfi til fjármála- og efnahagsráðherra sem Hagsmunasamtök heimilanna birtu 22. janúar í fyrra var spurt: Hvers vegna að selja, núna eða yfir höfuð? Þessari spurningu hefur í raun aldrei verið svarað og margvíslegar ástæður og markmið með hugmyndum um sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka eða öðrum bönkum sem hafa verið settar fram, koma ekki heim og saman við nánari skoðun. Förum yfir það.

1. Það er ekki hlutverk ríkisins að reka banka. Þetta eru ekki rök heldur fullyrðing byggð á þeirri hugmyndafræði að allt sem geti verið einkarekið eigi að vera það. Öllum er frjálst að hafa slíka lífsskoðun en þeir sem aðhyllast hana hafa aldrei fært rök fyrir því hvers vegna það sé endilega verra að ríkið eigi banka sem þjónar samfélaginu.

2. Draga þarf úr áhættu ríkisins af bankarekstri. Vissulega þarf að takmarka áhættu af bankarekstri eins og kostur er. Það eru samt engin rök fyrir því að þeim rekstri sé betur borgið í höndum einkageirans. Ríkið hefur aldrei orðið fyrir eins miklu tjóni af bankarekstri og í kjölfarið á stuttu tímabili óhefts einkarekstrar í byrjun þessarar aldar sem lauk með þriðja stærsta gjaldþroti mannkynssögunnar haustið 2008. Á hinn bóginn hefur rekstur banka sem tóku við í kjölfarið verið blómlegur þrátt fyrir eignarhald ríkisins á tveimur af þremur þeirra. Ef lærdómur sögunnar er lagður saman er því ljóst að einkarekstur bankakerfisins er mun áhættusamari fyrir ríkið en nokkrir aðrir valkostir um fyrirkomulag eignarhalds á bönkum.

3. Efla virka samkeppni á fjármálamarkaði. Reynslan af einkavæðingu Arion banka sýndi fram á að það er alls ekkert lögmál að samkeppni aukist með einkavæðingu. Íslandsbankaumhverfi er ekki samkeppnisumhverfi heldur fákeppnisumhverfi, eins og Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað bent á í skýrslum sínum. Jafnvel mætti færa rök fyrir því að íslenskan bankamarkað einkenni þögult samráð í skilningi samkeppnisréttar. Fyrirkomulag eignarhalds breytir litlu sem engu um þann veruleika.

4. Mikilvægt er að dreifa eignarhaldi. Ég held að það megi fullyrða að það markmið hafi ekki náðst. Og ekki má gleyma því að hvernig sem að einkavæðingu er staðið eftir hana er algjörlega úr höndum ríkisins hvort eignarhald verði áfram dreift eða safnist á hendur fárra, eins og dæmi eru um. Einkavæðing sem slík er því engin trygging fyrir varanlegri dreifingu eignarhalds eða eigendavalds til lengri tíma.

5. Ríkið þarf á peningum að halda. Ríkið hefur fyrir löngu endurheimt allt það sem það lagði í stofnun nýju bankanna og hægt er að sýna fram á að arður af núverandi eignarhlutum þess geti orðið talsvert meiri til lengri tíma en einskiptishagnaður af því að selja þá nú.

Að lokum stóð í þessu opna bréfi Hagsmunasamtaka heimilanna til fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Til viðbótar við ofangreint skiptir engu máli þó regluverk hafi verið endurbætt, því hættan stafar ekki af því heldur þegar ekki er farið eftir reglunum, sama hversu góðar sem þær eru. Ekkert bendir til að einkavæðing breyti þessu, því að spillingaröflum er alveg sama um fyrirkomulag eignarhalds.“

Ég myndi segja að sannleiksgildi þessara orða hafi sýnt sig í nýlegri sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka þar sem ítrekað var fullyrt að regluverkið væri svo gott að enginn þyrfti nokkrar áhyggjur að hafa. Á blaðsíðu 24 í greinargerð hæstv. fjármálaráðherra vegna framhalds á sölu ríkisins á Íslandsbanka eru skilgreindar kröfur til fjárfesta sem eru taldir hæfir til að fara með virkan eignarhlut í banka. Þar sem þetta var eini staðurinn þar sem hæfa fjárfesta er tilgreint er ekki óvarlegt að líta svo á að þetta séu þeir hæfu fjárfestar sem Bankasýslan vildi ná til í útboðinu 22. mars. Hæfnismatið grundvallast nú á öllum eftirfarandi atriðum: Orðspori þess sem hyggst eignast banka eða auka við hlut sinn í banka, orðspori og reynslu þess sem hyggst veita banka forstöðu, fjárhagslegu heilbrigði viðkomandi sem skal tryggt, m.a. með tilliti til starfsemi viðkomandi banka, að eignarhaldið torveldi ekki eftirlit og að eignarhaldið leiði ekki til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.

Í fyrsta lagi standast engir almennir fjárfestar þessi skilyrði. Í öðru lagi er vandséð að einstaklingar sem tengdust hruni fjármálakerfisins 2008 standist þessi skilyrði. Í þriðja lagi er útilokað að fjárfestir sem er að kaupa prósentubrot standist þessi skilyrði.

Að lokum tel ég rétt að það komi skýrt fram að a.m.k. 10.000 heimili voru hirt á nauðungarsölum vegna þessarar þjónkunar við fjármálaöflin og að 5.000–10.000 í viðbót gengu að einhvers konar nauðasamningum við bankann og misstu heimili sín vegna þeirra. Þá eru ótalin þau þúsund sem náðu að halda heimili sínu með því að gera nauðasamninga við bankann sem settu þau í klafa fátæktar og skorts. Alveg sama hvað fjármálaráðherra segir þá hefur ekkert verið gert upp gagnvart þessu fólki sem var hreinlega fórnað fyrir ávinninginn sem við sjáum í dag. Það er á herðum þessa fólks sem gríðarlegur hagnaður bankanna frá hruni hvílir. Það er því ekki aðeins fráleitt heldur beinlínis ósvífið að halda því fram að ríkið hafi fengið Íslandsbanka endurgjaldslaust. Þvert á móti voru eignarhlutir ríkisins í bönkunum dýru verði keyptir á kostnað fórnarlamba þeirra í kjölfar hrunsins. Hið háa verð bankanna er ekki til komið vegna snilli fjármálamanna, bankamanna eða stjórnmálamanna því að það er lítill vandi að búa til fé þegar þú hefur veiðileyfi á fjölskyldur landsins og getur oft með ólöglegum hætti og alltaf í krafti aflsmunar hirt lífsstarfið af fjölskyldum þannig að þær beri þess aldrei bætur. Ég frábið mér útúrsnúning hvað varðar þessa 15.000 fjölskyldur því að þær hafa þurft að þola nóg og eiga það síst skilið að ráðamenn snúi hnífnum í sárum þeirra með því að afneita því sem þær gengu í gegnum.

Núna verðum við að gera betur. Núna verðum við að læra af þessu og núna verðum við að koma í veg fyrir að þetta gerist nokkurn tímann aftur og það gerum við ekki með feluleikjum heldur því að horfast í augu við það sem gerðist og taka ábyrgð á því. Núna verðum við að láta gera óháða rannsóknarskýrslu sem er hafin yfir allan vafa og þar dugar ekkert fúsk.