Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla bara að leyfa mér að tala fyrir munn nokkurra stjórnarþingmanna hér af því að ég tel mig vita um hvað málið snýst. Þetta er ekkert óþekkt og maður hefur auðvitað gripið til þessara hluta sjálfur þegar maður þarf að vinna sér tíma. Þetta eru tafaleikir. Það er verið að reyna að vinna sér tíma. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þegar Ríkisendurskoðun skoðaði bankasölurnar á sínum tíma og gaf út heilbrigðisvottorð þá var það ekkert endilega vegna þess að þar hafi verið notað eitthvert sleifarlag, og ég hef traust á Ríkisendurskoðun til þeirra verka sem hún er best fallin. En eins og ríkisendurskoðandi sagði sjálfur þegar skýrsla rannsóknarnefndarinnar birtist og sýndi allt aðra mynd, þau sögðu að þau hefðu ekki nægar rannsóknarheimildir til þess að komast að þeirri niðurstöðu sem birti svo sannleikann á endanum, sem var ekkert sérstaklega fallegur. Ég endurtek það að ég held að ríkisstjórn í haugasjó, ríkisstjórn í kreppu, ríkisstjórn í mótbyr, sé að reyna að vinna sér tíma og ég held að stjórnarliðar, flestir gegn betri samvisku, tali fyrir því að þetta fari fyrst í gegnum Ríkisendurskoðun og svo tökum við e.t.v. ákvörðun um að fara í nánari skoðun einhvern tímann í júní til að vinna dýrmætan tíma til að lægja öldurnar á stjórnarheimili þar sem allt leikur á reiðiskjálfi.