Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér hefur einmitt þótt þetta alveg ótrúlega furðulegt, þetta með heildarmyndina og stóru myndina sem þau eru alltaf að tala um, bæði ráðherra og nú nýverið allir stjórnarþingmenn sem koma í viðtöl. Auðvitað er alltaf gott þegar heildarmynd hluta er í lagi en það kemur þó ekki í veg fyrir að það getur verið fullt af brotalömum inni í henni. Ég meina, árið 1985 getur hafa verið í stórum dráttum mjög gott ár en það geta hafa verið framin morð og afbrot og alls konar óáran sem þarf samt sem áður að taka á. Og hér er bara fullt af hlutum sem eru beinlínis til þess fallnir að rýra traust. Raunar var það þannig að við fórum auðvitað ekki af stað í neinum blússandi meðbyr. Það lá fyrir að stór hluti þjóðarinnar hafði bara ekki traust á þessum tiltekna fjármálaráðherra til að standa fyrir sölunni. Það út af fyrir sig er ekki gott en það er auðvitað á ábyrgð Framsóknarflokksins og Vinstri grænna að hafa leitt hann í þetta sæti, þannig að við getum talað endalaust um það. En ég tek alveg undir með hv. þingmanni að það hefur einhvern veginn smám saman molnað undan þessu trausti og við erum bara á miklu verri stað núna í lok apríl en við vorum í byrjun árs. Það er mjög alvarlegt. Án þess að ég ætli nú að fara að endurflytja það hér, þá hvet ég ykkur til að hlusta á viðtal við heimspekinginn Henry Alexander Henrysson, sem var á Rás 1 í morgun, um traust og gegnsæi. Ég ætla að gefa honum orðið. Hlustið á það á eftir.