Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:28]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þetta allt. Já, ég skal alveg tala aðeins nánar um þetta. Mér finnst þessi setning sem þarna kom fram, eftir að búið var að greina frá því að til stæði að leggja Bankasýsluna niður, segja sitt. Mér finnst það segja sitt að Bankasýslan skuli leggja lykkju á leið sína og kveða svo fast að orði með það að á hverju einasta stigi hafi stjórnvöld — þau tala reyndar um stjórnvöld en ekki ráðherra — verið upplýst ítarlega um öll skref sem stigin hafi verið. Miðað við tímasetningu þessarar yfirlýsingar Bankasýslunnar, því við vitum að þar gátu menn ekki séð það fyrir að viðbrögð stjórnvalda, sem reyndist síðan vera klúður, yrðu að loka sjoppunni og slá Bankasýsluna af, þá hljótum við að rýna þetta með þeim gleraugum að Bankasýslan sé með mjög penum hætti að benda á að ekki sé hægt að flýja frá ábyrgðinni með þeim hætti sem ríkisstjórnin er að reyna að gera. Þegar við erum að tala um ábyrgð, hversu langt svo sem við viljum velta henni, hvort menn eigi að fara út í það að segja af sér eða biðjast afsökunar eða hvernig sem menn eiga að axla þessa ábyrgð, hljótum við að halda því vel og rækilega til haga að ekki er hægt að tala með þeim hætti sem talað hefur verið, að allt hafi gengið glimrandi vel en það hafi verið atriði í framkvæmdinni sem ekki hafi gengið nógu vel. Og því sé ráðherra allt í einu stikkfrí. Ráðherra var ítarlega upplýstur um öll skref sem stigin voru, náið samstarf var haft við stjórnvöld í hverju einasta skrefi. Það er alveg hárrétt. Hvort sem þetta er nú nákvæmt af Bankasýslunni eða ekki hljótum við að lesa þetta með þeim formerkjum að þetta sé sett fram í því andrúmslofti að þarna er nýbúið að ákveða að leggja Bankasýsluna niður. Við sjáum það á þessum ummælum að Bankasýslan er ekki par sátt við það að henni sé kastað á bálið og undir rútuna, eins og sagt er.