Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:32]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég myndi nú kannski bara í framhaldi af þessum orðum hv. þm. Björns Leví Gunnarssonar nefna að ráðherranefndin er svolítið mikilvægt apparat í þessu öllu. Auðvitað er það alveg sérstaklega áhugavert að einn í þeirri nefnd skyldi koma, eftir að allt var farið í vaskinn, og lýsa því yfir að hann hafi verið ósáttur við að þessi leið yrði farin og séð það fyrir, við skulum taka eftir því, sá það fyrir að þetta yrði klúður. Af því að við erum að tala um ábyrgð þá veltir maður því fyrir sér: Hver er þá ábyrgð þess ráðherra sem sér fyrir að meiri háttar ákvörðun ríkisstjórnarinnar, um að selja eign upp á 50 milljarða í lokuðu útboði, myndi enda með klúðri? Það er mjög alvarlegt mál að ráðherra skyldi ekki hafa viðrað þær áhyggjur sínar opinberlega. Við hljótum að þurfa að fá nánari skýringar á því af hverju það var ekki gert.

Auðvitað var það síðan þannig, eins og við þekkjum, að hæstv. forsætisráðherra fór í þann leik að tala um að ekkert hefði verið bókað formlega um málið. En hæstv. viðskiptaráðherra stígur það fast niður, eftir að allt er um garð gengið, með þessa fullyrðingu sína um að hún hafi varað við og hún hafi séð að þetta yrði klúður, að það hlýtur að verða eitt af því sem kemur til skoðunar þegar farið verður í gegnum þessa sölu. Það er ekki nóg að Ríkisendurskoðun skoði það sem snýr að Bankasýslunni og að Fjármálaeftirlitið skoði síðan það sem snýr að söluráðgjöfunum eða eitthvað slíkt. Það er enginn, eins og við erum alltaf að benda á, að velta fyrir sér þessu efsta lagi í ábyrgðarkeðjunni. Það er alveg stórfurðulegt, ef við tölum bara um þetta sem þrjú lög, að eina lagið sem við skiljum eftir er efsta lagið þar sem ábyrgðin ætti í raun að vera mest, pólitíska ábyrgðin. Þar eru kjörnir fulltrúar almennings að taka ákvarðanir um hvernig eigi að selja og einn af þremur sá það fyrir að þetta myndi enda með klúðri. Þetta þarf að skýra miklu betur, bæði hér á vettvangi þingsins og með formlegri rannsókn.