Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Tvö atriði. Fyrst, eins og hv. þingmaður segir, að ef það komi eitthvað upp þá sé hann nú alveg til í að setja rannsóknarnefnd til starfa. Vandinn við það er að við erum með fordæmi fyrir því að Ríkisendurskoðun hafi skilað niðurstöðu um einkavæðingu bankanna sem fór algerlega úrskeiðis þar sem ekki voru gerðar neinar athugasemdir við þá einkavæðingu. Þannig að ef Ríkisendurskoðun skilar svipuðum niðurstöðum núna, að það hafi ekkert verið að, þá erum við engu nær. Við vitum að rannsóknarnefnd kemst að fleiri og nánari upplýsingum en Ríkisendurskoðun getur gert, sem þýðir að ef Ríkisendurskoðun skilar niðurstöðu sem segir: Það var ekkert að þessu, þá þurfum við samt rannsóknarnefnd. Það er óhjákvæmilegt. Við vitum að fjármálaráðherra seldi pabba sínum banka, það er athugavert. Það verður að skoða það, það er ekkert flókið. Ef Ríkisendurskoðun skilar síðan hins vegar skýrslu um að hérna hafi eitthvað farið úrskeiðis, af því að aðstæður eru kannski eitthvað aðeins öðruvísi núna, þá vill hv. þingmaður rannsóknarnefnd. Í hvoru tilvikinu fyrir sig þarf rannsóknarnefnd. Af hverju erum við að bíða með það? Ég skil það ekki.

Hitt sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um varðar það að hann segir að framkvæmdin hafi ekki verið góð og við hefðum átt að gera kröfur. Er það af því að fjármálaráðherra er ekki treystandi til að gera þetta sómasamlega? Í alvörunni? Þingið er hérna til að veita umsögn um greinargerð fjármálaráðherra og „treystir“ fjármálaráðherra, innan stórra gæsalappa, til þess að sinna sínu starfi, ráðherra vinnur í umboði þingsins. En ef þingið er sífellt að setja kröfur og vörður o.s.frv. fyrir ráðherra, af hverju eigum við að hafa þann ráðherra? Af hverju höfum við ekki einhvern ráðherra sem getur gert þetta almennilega?