152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[00:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Einföld spurning hérna til hv. þingmanns: Nær rannsókn Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlitsins til allra atriða málsins? Ná þessir tveir aðilar að dekka öll möguleg sjónarmið og atriði sem eru undir í þessu máli? Ég spyr af því að við erum með fyrri dæmi um að svo sé ekki, skýrslu Ríkisendurskoðunar um fyrri einkasölu bankanna og síðan rannsóknarskýrslu Alþingis sem sýndi að það var greinilega miklu meira að en Ríkisendurskoðun komst yfir. Þetta skiptir dálitlu máli af því að ef hv. þingmaður trúir því að þessir aðilar, Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið, nái yfir allt sviðið hérna þá er í rauninni verið að segja að það sé aldrei þörf fyrir rannsóknarnefnd af því að þetta séu úrræði sem í rauninni dekki allt sem skoða þurfi. En ef ekki myndi ég vilja spyrja hvaða önnur úrræði séu til sem myndu ná yfir málið í heild sinni af því hv. þingmaður vísaði hérna í lög um rannsóknarnefndir um að þetta þyrfti að vera úrræði þar sem ekkert annað væri til í rauninni, þetta væri sérstakt úrræði hvað það varðar. Þannig að í fyrsta lagi: Ná Fjármálaeftirlitið og Ríkisendurskoðun yfir allt sviðið? Ef nei, hverju þarf að bæta við til þess að það gerist og ef svo er er það ekki einfaldlega bara rannsóknarnefnd?