152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[01:04]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir það. Mig langar að spyrja hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson. Nú hefur það verið þannig í þessari umræðu, allt frá því að bankinn var seldur, að ríkisstjórnin og fulltrúar stjórnarflokkanna hafa farið í alls konar umræður um alls konar atriði sem tengjast kannski meira því hvernig er verið að bregðast við því sem gerðist. Það er verið að leggja til að leggja niður Bankasýsluna og við höfum verið að ræða það svolítið hvernig það var kynnt, og það er verið að ræða Ríkisendurskoðun og hvort hún sé með réttu verkfærin og ýmislegt slíkt. En allt eru þetta afleiðingar og stundum er kannski verið að ýta okkur í stjórnarandstöðunni í átt að smáatriðum sem tengjast ekki grundvallarspurningunni sem er: Hvaða grunnatriði voru ekki í lagi í sölunni sem við vitum nú þegar um? Gæti hv. þingmaður kannski gefið yfirlit yfir þau, það að selja t.d. aðilum sem verið er að rannsaka fyrir brot, það að selja ættingjum o.s.frv.? Þetta eru hlutir sem voru ekki réttir í sjálfri sölunni en við erum farin að tala of mikið, finnst mér, um afleiðingarnar og smáatriðin. Hver eru grunnatriðin sem eru röng í sölunni?