Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[01:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, lögunum sem sett voru, var ætlað að búa til trausta umgjörð um sölu á eigum ríkisins í bönkunum. Þar voru lykilorðin gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Það skipti mjög miklu máli að setja slíkt í lög, fannst okkur á þeim tíma, þegar lögin voru samþykkt í desember 2012, til að draga lærdóm af hruninu, til að sjá til þess að ferlið sem færi í gang, ef selja ætti hlut ríkisins í bönkunum, yrði siðlegt og líklegt til að skapa traust, og ábyrgð ráðherra er skrifuð mjög rækilega inn í lögin.

Útboðið sem við ræðum hér er umdeilt en samþykkt var að fara í lokað útboð sem ætlað væri hæfum fjárfestum, ætlað fagfjárfestum. Hér á landi er ekki til neinn opinber listi yfir fagfjárfesta eins og finnst víða erlendis. Hver miðlari verður þannig að flokka viðskiptavini sína sem almenna fjárfesta eða fagfjárfesta eftir því sem lög segja til um hvernig skilgreina eigi. Margir einstaklingar sem samkvæmt skilgreiningu eru almennir fjárfestar fengu að taka þátt í þessu útboði eins og þeir væru fagfjárfestar. Nú hefur Fjármálaeftirlitið beðið um upplýsingar um þessa flokkun, hvernig hún var gerð, og það er gott því að það þarf að fara í gegnum þetta. Niðurstaðan er samt sú að aðferðin sem lagt var upp með bauð upp á að miðlarnir bættu einstaklingum inn í hóp þeirra sem fengju að kaupa fram á síðustu stundu. Við höfum séð þennan lista. Við höfum séð hverjir fengu að kaupa á afslætti í þessu útboði. Sú spurning er áleitin hvort þetta hafi bara verið dæmigert íslenskt fúsk eða vanhæfni eða gert í samráði við Bankasýsluna og ráðherra og við verðum að fá svör við henni.

Formaður fjárlaganefndar sagði í ræðu sinni fyrr í dag að hún hefði staðið í þeirri trú að um langtímafjárfesta væri að ræða og því hefði niðurstaðan, þegar listinn birtist, komið henni á óvart. Bankasýslan segir að hvert skref hafi verið stigið í samráði við stjórnvöld, enda gera lögin ráð fyrir því. Mér finnst gæta misskilnings, þegar kemur að umræðunni um lögin, um hlutverk Bankasýslunnar og ábyrgð ráðherra. Mér finnst sá misskilningur hafa komið fram í mörgum ræðum hér í dag og áður og þess vegna finnst mér mikilvægt að við rennum aðeins yfir lögin.

Í 1. gr. er talað um hvað ráðherra sé heimilt að selja. Þegar þessi lög voru samþykkt átti ríkið 13% hlut í Arion banka, 5% hlut í Íslandsbanka, og lögin segja að heimilt sé að selja þessa hluti, og síðan umfram 70% í Landsbankanum, en á þessum tíma átti ríkið 81% í Landsbankanum. Það er svo seinna sem fjármálakerfið lendir nánast allt í fangi ríkisins eða árið 2015.

Í 2. gr. er talað um ákvörðun um sölumeðferð og þar segir, með leyfi forseta:

„Þegar ráðherra hefur fallist á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu eignarhlutar ríkisins í fjármálafyrirtæki skv. 1. mgr. 1. gr. skal hann útbúa greinargerð um ráðgerða sölumeðferð og leggja fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Ráðherra skal jafnframt leita umsagnar Seðlabanka Íslands um jafnræði bjóðenda, líkleg áhrif sölu á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða og laust fé í umferð. Í greinargerðinni skulu m.a. koma fram upplýsingar um helstu markmið með sölu eignarhlutarins, hvaða söluaðferð verði beitt og hvernig sölumeðferð verði háttað að öðru leyti. Nefndunum skal veittur hæfilegur frestur til þess að gera athugasemdir við efni greinargerðarinnar.

Að liðnum fresti skv. 1. mgr. skal ráðherra taka ákvörðun um hvort sölumeðferð eignarhlutarins verði hafin í samræmi við efni greinargerðarinnar. Ráðherra getur í ákvörðun sinni gert breytingar á einstökum þáttum í fyrirhugaðri sölumeðferð, m.a. að teknu tilliti til athugasemda fjárlaganefndar eða efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við greinargerðina.“

Í þessari 2. gr. er alveg ljóst hver það er sem ræður og ákveður stefnuna og hvernig skipulagið er og það er fjármála- og efnahagsráðherra.

Í 3. gr. er talað um meginreglu við sölumeðferð:

„Þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Þá skal við sölu kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.“

Um 3. gr. segir í frumvarpinu með þessum lögum, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að jafnræðis sé gætt milli þeirra sem koma til greina sem mögulegir kaupendur að eignarhlut svo að allir líklegir kaupendur hafi jafna möguleika á því að gera tilboð. Jafnræði verður best tryggt með því að skilyrði við sölu séu fá, skýr og öllum ljós.“

Í 4. gr. er farið yfir sölumeðferð eignarhluta. Þar segir, með leyfi forseta:

„Bankasýsla ríkisins skal annast sölumeðferð eignarhluta fyrir hönd ríkisins í samræmi við ákvörðun ráðherra, sbr. 2. gr. Bankasýsla ríkisins undirbýr sölu, leitar tilboða í eignarhlut, metur tilboð, hefur umsjón með samningaviðræðum við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð.

Þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“

Herra forseti. Mér finnst þessi 4. gr. afskaplega skýr. Það er algerlega ljóst að það er ráðherrann sem hefur lokaorðið og tekur tillögu Bankasýslunnar. Hann segir annaðhvort: Já, ég ætla að ganga þessu. Eða: Nei, ég ætla að hafna þessu. Það fer eftir því hvernig tilboðin eru og hvort þau passi við anda laganna og stefnuna sem tekin hefur verið. Í 5. gr. er síðan talað um skýrslugjöf.

Tvö ákvæði eru til bráðabirgða. Annað er um sölumeðferð í sparisjóðunum, hvernig staðan var á þeim og hvaða hluti þessara laga gilti um þau. Ákvæði til bráðabirgða nr. II hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi hefur ályktað að skipa rannsóknarnefnd um einkavæðingu þriggja banka á tímabilinu 1998–2003. Þegar niðurstöður þeirrar rannsóknar liggja fyrir skal fjármála- og efnahagsráðherra endurskoða einstök ákvæði þessara laga til samræmis við ábendingar rannsóknarnefndarinnar ef tilefni þykir til.“

Þessi rannsókn hefur aldrei farið fram. Alþingi samþykkti að fram ætti að fara rannsókn á einkavæðingu bankanna og við ættum síðan að draga lærdóm af þeirri rannsókn. Þetta var samþykkt árið 2012 en ríkisstjórnir sem hafa tekið við eftir það tímabil hafa ekki sett þessa rannsóknarnefnd á laggirnar.

Herra forseti. 83% landsmanna lýsa því yfir að þau séu óánægð með hvernig til hafi tekist við þessa sölu. Það eru næstum allir. Reyndar var meiri hluti landsmanna á móti því yfir höfuð að farið yrði í að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka. En svo illa hefur tekist til að næstum allir eru óánægðir og það er augljóst, samkvæmt lögunum, að ábyrgðin er fjármála- og efnahagsráðherra. Hún er skýr samkvæmt lögum. Jafnvel þó að Sjálfstæðismenn hafi greitt atkvæði gegn þessum lögum á sínum tíma leyfir það þeim ekki að brjóta þau.