Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[02:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég var næstur í ræðustól og ætlaði einmitt að minnast á þetta í ræðunni minni en það er alveg viðeigandi að gera þetta í fundarstjórn forseta af því að þetta er mjög klassískur hæstv. fjármálaráðherra. Hann kemur og heldur ræðuna sína, hinkrar hérna þangað til eftir fyrsta andsvar eftir að ræðu hans er lokið, kemur í andsvar við hana og lætur sig síðan hverfa. Þetta átti að vera umræða við ráðherra um sölu Íslandsbanka og hann hefur ekki tekið neinn þátt í þeirri umræðu, ekki neinn. Fyrsta ræðan, andsvör, andsvör við fyrstu ræðu annars þingmanns, farinn. Þetta er hans modus operandi, starfsaðferð. Það er ekki nema sérstaklega sé kallað eftir honum að hann lætur sjá sig af og til. Ég kalla eftir því að fjármálaráðherra mæti hér til svara. Hann sagði í Sprengisandsviðtalinu um daginn að hann skoraðist hvergi undan því að ræða þetta mál en ekki hafa ræðurnar verið margar eða samtalið mikið hér í dag. Á þeim nótunum finnst mér óeðlilegt að það sé komið fram yfir klukkan tvö að nóttu og þingfundur enn í gangi. (Forseti hringir.) Það eru ýmsir þingmenn sem geta illa verið hér að nóttu til af ýmsum ástæðum, fjölskylduástæðum og þess háttar, og ég tel að það sé einfaldlega verið að halda þeim (Forseti hringir.) frá þessari umræðu ef hún á að halda áfram inn í nóttina.