Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[02:08]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að fá að taka undir það sem fram kom í máli hv. þingmanns. Það var einmitt mjög bagalegt hér í dag hvernig hæstv. fjármálaráðherra vék sér undan spurningum sem að honum var beint. Bara svo tekið sé dæmi þá innti ég hann sérstaklega eftir því hvernig hann hefði rækt hlutverk sitt sem mælt er fyrir um í 4. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, hvernig hann hefði sem sagt gætt þess að lagður væri fullnægjandi grundvöllur að ákvörðun hans og hvaða lögum og reglum, skráðum og óskráðum, hann teldi sig hafa verið bundinn af. Í raun kom ekkert frá ráðherra nema dylgjur og skætingur. Hann gekk hér um, þrammaði, og reitti hár sitt og skegg og svaraði litlu og hefur svo eiginlega ekki sést í húsi núna í kvöld. Mér finnst þessi umræða hér og þessi munnlega skýrslugjöf missa marks ef hæstv. ráðherra ætlar ekki að koma (Forseti hringir.) og eiga við okkur orðastað og a.m.k. draga aðeins saman og bregðast við (Forseti hringir.) þeim athugasemdum sem hafa verið settar fram hér í dag, kvöld og nótt.