152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:28]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Ég er bara að spyrja um þennan tiltekna stýrihóp um innleiðingu breytinga á barnaverndarlögum og ég óska eftir svari við því hvenær sá hópur var settur á laggirnar og hversu lengi hann hefur starfað. Ég vil bara fá það svar hér í pontu, takk. Við breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof í desember 2020 lagði meiri hlutinn til breytingar þess eðlis að skipa ætti starfshóp á vegum dómsmálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis varðandi það að verja þá sem sæta nálgunarbanni, þ.e. verja þá sem þurfa að þola ofbeldi og hafa fengið við illan leik nálgunarbann á hitt foreldrið til að sá einstaklingur geti nýtt fæðingarorlofsrétt þess foreldris sem beitir ofbeldi. Sá starfshópur hefur mér vitanlega ekki enn þá tekið til starfa og væri gott að heyra í hæstv. ráðherra ef það er rangt hjá mér. Ég hef aðeins verið að spyrjast fyrir um þetta mál (Forseti hringir.) og sýslumaður sem fæst við þessi mál og Fæðingarorlofssjóður vita ekkert hvernig þau eiga að taka á þessum málum.