152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:29]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan þá skal ég koma upplýsingum til hv. þingmanns um með hvaða hætti samráði er háttað við sveitarfélög í þessu. Ég er ekki með það í kollinum en ég skal koma því til hv. þingmanns. Ég vona (Gripið fram í.)að hún virði það við mig að ég er ekki með allar dagsetningar á hreinu, hvenær allir stýrihópar og starfshópar og annað í ráðuneytin eru skipaðir og klukkan hvað og nákvæmlega hverjir eru í þeim. En ég skal koma því til hv. þingmanns.

Varðandi hitt málið sem hv. þingmaður nefnir þá heyrir það í dag ekki undir hæstv. mennta- og barnamálaráðherra. Það heyrir undir félagsmálaráðherra því að fæðingarorlofslöggjöfin heyrir undir félagsmálaráðherra. En ég man ekki betur, og það getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér þar og þá biðst ég afsökunar fyrir fram, en að umræddar lagabreytingar sem vitnað var til við breytingar á fæðingarorlofslöggjöfinni hefðu skilað sér inn í þingið í lok síðasta kjörtímabils. Ég veit ekki nákvæmlega í hvaða farvegi þau mál eru í dag í félagsmálaráðuneytinu en get komið upplýsingum áfram um þessi mál og kannað hvernig þeim er háttað.