152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:30]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og barnamálaráðherra fyrir að koma með þetta frumvarp til okkar þó að það komi svolítið seint. Það er kannski spurning hvort við þurfum ekki að horfa aðeins á það hvaða hluti við erum að setja í forgang þegar kemur að því að afgreiða frumvörp, sérstaklega frumvörp sem eru eins og þetta ákveðna frumvarp, eru dagsetningarmál eins og við köllum það.

Efnislega séð held ég að við séum öll sammála því að þetta frumvarp fari í gegn og mig langar kannski frekar að ræða hvernig við virðumst eyða ansi miklum tíma þingsins í það að laga hluti eða seinka hlutum. Þá held ég að við þurfum að fara að horfa svolítið á það hvort við séum stundum að keyra í gegn lög of snemma og þá gildistöku þeirra, hvort við séum að setja hana mun fyrr heldur en við ættum kannski að vera að gera í sumum tilfellum, sér í lagi þar sem verið er að framkvæma stórar breytingar á kerfum. Við þurfum að passa okkur á því að þó svo að kosningar séu á næsta leiti, eins og þær voru þegar þetta frumvarp var breytt og þessu kerfi var breytt og það var mikilvægt fyrir hæstv. ráðherra að geta talað um að hafa nú breytt þessum lögum, þá gefum við okkur samt sem áður þann tíma sem nauðsynlegur er til þess að geta innleitt jafn stórar breytingar.

Mig langaði líka að koma inn þá athugasemd sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom með, sem er það að hér er verið að snerta á ansi mörgum greinum í frumvarpinu og mjög auðvelt að gleyma einni grein eða tveimur eða jafnvel setja vitlausa grein inn. Það þarf ekki að horfa langt aftur til þess þegar þurfti að kalla saman þing hér, sem var síðasta sumar, vegna þess að ein grein hafði fallið niður í leiðréttingu eins og þessari, einni grein of mikið, og allt í einu voru listabókstafir ekki lengur til þegar kom að því að kjósa. Þetta er nokkuð sem mig langar að beina til forseta og þingskrifstofunnar. Við fáum alltaf hér á okkar borð frumvörp eins og þetta, þá er ég ekki að tala sérstaklega um þetta heldur er formið á frumvörpum þannig að við erum að segja að eftirfarandi grein breytist svona eða eftirfarandi grein dettur út eða eftirfarandi grein fær ákvæði til bráðabirgða. Það er voða erfitt að sjá út frá þannig frumvarpi og út frá slíku formi hvernig endanlegu lögin munu líta út. Það gerist oft ekki fyrr en nokkrum mánuðum eftir að búið er að afgreiða frumvörpin til laga hér að þau birtast í lagasafni Alþingis. Það var einmitt að koma bara núna fyrir stuttu ný uppfærsla á lagasafninu. Þegar við höfum ekki hvernig endanlega útgáfan á lögunum verður sjónrænt fyrir framan okkur þá er auðvelt að missa af því að við séum að gleyma einhverri grein, að við séum að fella út einhverja grein o.s.frv. sem ekki ætti að fella út. Ég held að það sé tiltölulega auðvelt með tækni nútímans að framkvæma það þannig að við getum séð hvernig frumvörp og lögin breytast, að við þingmenn höfum það sjónrænt til að átta okkur betur á því hvaða áhrif svona langloka hefur. Sem dæmi er hér ein málsgrein:

„Barnaverndarnefndir skv. 2. mgr. fara með verkefni sem barnaverndarþjónustu og umdæmisráðum barnaverndar er falið í 2. mgr. 3. gr., 6. gr., b- og d-lið 2. mgr. og c-lið 3. mgr. 7. gr. …“ — Og það eru sjö línur eftir af þessu.

Það er rosalega auðvelt að gleyma einhverju og það er líka rosalega erfitt fyrir okkur sem eigum að vera vinna í því að tryggja að hér séu sett góð lög að yfir höfuð átta okkur á því hvaða breytingar þetta hefur í för með sér. Jú, jú, við gætum prentað út lögin eins og þau eru og byrjað að reyna að púsla þessu öllu saman en ef við gerðum það fyrir hvert einasta frumvarp sem kemur hérna fram held ég að við myndum gera lítið annað. Mig langar að skora á virðulegan forseta og þingskrifstofuna að skoða hvort ekki sé hægt að gera eitthvað til að auðvelda okkur að lesa svona frumvörp og auðvelda okkur að passa okkur á því að gera ekki mistök. Ég veit að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hefur margt annað betra við tíma sinn að gera en að koma hér og flytja enn eitt frumvarpið þar sem bættist við eða datt út ein lítil grein.

Við þurfum að sjálfsögðu að tryggja það að hér sé virk og góð barnaverndarþjónusta. Ég er sammála hæstv. ráðherra að það er mikilvægt að þær séu ekki pólitískt skipaðir eins og þær hafa verið. Það er sorglegt að við þurfum að bíða til næsta árs eftir því. En við skulum frekar flýta okkur hægt og gera þetta vel því að þarna erum við að tala um það hvernig við sinnum þeim börnum sem eru í hættu, þeim börnum sem við virkilega þurfum að taka vel utan um.