152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[15:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hennar yfirgripsmiklu ræðu. Það er gott að heyra sérfræðiþekkingu hennar hérna í pontu. Hún er sálfræðingur, starfar hjá barnavernd þannig að þetta er hennar daglega umhverfi sem hún er hér að fjalla um. Ég hvet þá sem eru að hlusta til að leggja sérstaklega við hlustir þegar hún stendur í pontu og ræðir um málefni barna af því að þarna mælir hún af fagmennsku um þau málefni sem hún fæst við á degi hverjum. Það er nefnilega þessi ofboðslegi skortur á úrræðum sem blasir við. Sá lagabálkur sem við unnum á síðasta þingi var auðvitað mjög mikilvægur varðandi samþættingu en allan tímann ræddum við, a.m.k. við í stjórnarandstöðunni, um að það að geyma börn á biðlistum mánuðum og árum saman eftir nauðsynlegum greiningum t.d. á þroskaskerðingu eða hegðunarvanda getur haft varanleg áhrif, bæði á börn og fjölskyldur þeirra. Það eru jú fjölskyldurnar allar sem eru með. Nú er búið að leggja niður að ég held öll heimili fyrir börn í vanda nema eitt á landinu og ég velti fyrir mér: Hvað verður um þau börn sem þurfa vegna einhverra ástæðna að búa tímabundið utan heimilis? Hvert fara þau börn? Hvar eiga þau möguleika?

Svo vil ég minna á að biðlistar eru ekki náttúrulögmál. Biðlistar eru pólitísk ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að vera með endalausa biðlista. Biðlistar fyrir börn sem eru í vanda, biðlistar fyrir börn sem vantar greiningu, biðlistar fyrir börn sem eru í bráðri þörf (Forseti hringir.) fyrir geðheilbrigðisþjónustu. Þetta er pólitísk ákvörðun.