152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[15:16]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir andsvar sitt. Já, ég er sammála, þetta er pólitísk ákvörðun, það er bara þannig. Það er til fullt af peningum til þess t.d. að samþætta þjónustu og það er bara frábært. En af hverju eru þessir peningar ekki notaðir, alla vega jafn mikið af þeim, til þess að minnka biðlista? Og ekki minnka, við skulum bara hætta að segja minnka. Útrýmum biðlistum. Af hverju eiga að vera biðlistar? Ég er fullkomlega sammála, það eiga ekki að vera biðlistar. Það er ekki náttúrulögmál að það séu biðlistar og það er hægt að útrýma þeim en til þess þarf vilja og til þess þarf fjármagn og það þarf líka að vera stjórnun. Það þarf að stjórna því á réttan hátt og það þarf að gera það með fagmennsku að leiðarljósi og með börnin og barnafjölskyldur í forgangi.