152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:35]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að samstaða sé innan ríkisstjórnarflokkanna um fullan stuðning við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra í Íslandsbankamálinu. Með öðrum orðum, algjörlega óháð því hvað kemur út úr rannsókn á aðkomu hans að þessu máli, mögulegu broti á lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum eða mögulegri vanrækslu fjármálaráðherra á að framfylgja þeim sömu lögum þá er samstaða innan ríkisstjórnarflokkanna er mynda ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur um fullan stuðning við fjármálaráðherra. Niðurstaða rannsóknar sem fjármálaráðherra, þrátt fyrir meint sjálfstæði Ríkisendurskoðunar, skipaði sjálfur skiptir engu máli. Í viðtali þann 19. apríl síðastliðinn kvaðst hæstv. forsætisráðherra, rétt eins og hæstv. viðskiptaráðherra, sem einnig á sæti í ráðherranefnd um framtíðarskipan fjármálakerfisins, hafa gert athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd sölunnar. Þau sitja þar þrjú og var að sögn forsætisráðherra engu að síður farin leið hæstv. fjármálaráðherra. Þær tvær bökkuðu með áhyggjur sínar. Bjarni vann.

Sama dag sagði hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Í þessu máli er það auðvitað Bankasýslan sem fer með framkvæmd málsins. Þá sýnist mér að þau atriði sem fyrst og fremst eru gagnrýniverð lúti að framkvæmdaatriðum en ekki prinsippákvörðuninni um að selja þennan hlut.“

Hæstv. forsætisráðherra. Það er enginn að tala um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að selja þennan hlut. Það er verið að tala um ákvörðun hæstv. fjármálaráðherra að fara af þeirri leið sem lagt var upp með. Já, ákvörðun hans, því það er hann samkvæmt lögum sem blessar hvert einasta skref í þessu ferli. Hann blessar fyrirkomulagið, hann blessar ferlið, hann blessar söluaðila, blessar verðið og tilboðin sem berast í hlutinn. Það er því eðlilegt, hæstv. forsætisráðherra, að spyrja hvort hún telji hann hafa verið að sinna sínu starfi, nú eða vanrækja það, þegar hann tók ákvörðun um að farið yrði svona út af þeirri braut framkvæmdar sem áður hafði verið ákveðin.