152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:50]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Forsætisráðherra talaði um áðan að ráðherrar beri pólitíska ábyrgð en gleymir algjörlega að minnast á að ráðherra getur einnig þurft að axla lagalega ábyrgð. Stjórnarliðar tala hér eins og ráðherra hafi engu hlutverki að gegna í ákvörðun um hvort ganga eigi að sölu á eignarhlutum ríkisins, sem er stórfurðuleg afstaða. Auðvitað hefur hann hlutverki að gegna, annars væri ekki tilgreint í lögunum að það þurfi ákvörðun ráðherra. Það er skýrt í greinargerð laganna um sölumeðferð eignarhluta ríkisins og er skýrt í stjórnsýslulögum og það var einnig skilningur stjórnarliða þegar lögin voru sett miðað við ræður þeirra sem voru fluttar á þeim tíma. Við erum ekki bara að ræða um pólitíska ábyrgð sem er hægt að vísa í næstu alþingiskosningar. Við erum að ræða að fjármálaráðherra seldi föður sínum banka í lokuðu útboði. Siðareglur ráðherra fjalla um hvernig það er óviðeigandi. Lög um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka fjalla um þetta. Stjórnsýslulög fjalla um þetta. Fjármálaráðherra getur ekki vikið sér undan ábyrgð sinni. Hann getur það ekki. Sér forsætisráðherra það ekki?

Forsætisráðherra segir að ekki skuli skipa rannsóknarnefnd nema einsýnt sé að aðrar leiðir séu ekki færar. En það er einmitt einsýnt að Ríkisendurskoðun hefur ekki eins víðtækar heimildir til að rannsaka málið til hlítar og rannsóknarnefnd Alþingis hefur. Ýmis atriði í sölunni falla hreinlega utan eftirlitsheimilda Ríkisendurskoðunar. Því liggur fyrir að stofnunin hefur ekki lagalega heimild til að afla allra nauðsynlegra upplýsinga. Hins vegar getur Ríkisendurskoðun vel starfað með rannsóknarnefnd og eru fordæmi fyrir því. Ég vil minna forsætisráðherra á það hversu mikilvægt það er fyrir uppbyggingu trausts að við stöndum saman í því að ákveða hvernig þetta mál verður rannsakað, að það sé samstaða á þingi. (Forseti hringir.) Mig langar til að spyrja ráðherra alveg í lokin, bara ein spurning í viðbót sem mig langar til að ráðherra svari: (Forseti hringir.) Hefur fjármálaráðherra sem arkitekt útboðsins axlað þá pólitísku og lagalegu ábyrgð sem fylgir klúðrinu við þessa sölu? (Forseti hringir.) Það er í raun og veru eina spurningin sem ég vil að forsætisráðherra svari.