152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:00]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að taka undir þessa sömu ósk. Dögum og vikum saman hafa meðlimir í fjárlaganefnd beðið þess að fá svör við mörgum en óskaplega einföldum spurningum fjárlaganefndar til Bankasýslunnar. Ég vona að það verði ekki reyndin að Bankasýslan komi ekki á fund á morgun vegna þess að hún hafi ekki lokið við að svara þeim. Ég vildi líka koma hér upp vegna orða forsætisráðherra um Fjármálaeftirlitið því að það skiptir máli, þegar verið er að tala um það hvaða aðilar fara með þessa rannsókn, að Fjármálaeftirlitið heyrir vissulega undir Seðlabanka Íslands en þegar lögin eru skoðuð þá er það alveg skýrt, kemur skýrlega fram í 15. gr. laganna, að eftirlitsþáttur bankans, Fjármálaeftirlitið, heyrir undir fjármálaráðherra. Við erum með eftirlitsstofnun sem er að kanna þætti í bankasölunni sem er á ábyrgð fjármálaráðherra. Eftirlitsstofnunin er líka undir fjármálaráðherra. Þetta er einfaldlega mikilvæg staðreynd í málinu.