152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:05]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég verð að fá að koma aftur inn á það sem við erum alltaf að leiðrétta aftur og aftur hér í stjórnarandstöðunni. Þegar talað er um Ríkisendurskoðun, Fjármálaeftirlitið og stofnanir samfélagsins og að þær séu kannski ekki heppilegar til að hafa ákveðin mál með höndum þá er það ekki eitthvert allsherjarvantraust á þær stofnanir. Það kemur fram aftur og aftur hér í málflutningi stjórnarliða að stjórnarandstaðan treysti ekki Ríkisendurskoðun, að stjórnarandstaðan treysti ekki hinum eða treysti ekki þessum. Þetta er ofur einfaldlega spurning um það að þeir sem eru best til þess fallnir og hafa ríkustu og bestu úrræðin hverju sinni taki yfir þau mál sem þarf að skoða. Í því felst ekki vantraust á eitthvað annað. Það að það séu t.d. efasemdir um traust til fjármálaráðherra núna þýðir ekki að það sé almennt vantraust á öllum ríkisstjórnum íslenska lýðveldisins frá upphafi, bara svo þetta sé nú heimfært yfir á einhverja líkingu sem fólk skilur. (Forseti hringir.) Við hljótum að geta talað saman án þess að vera að brigsla hvert öðru um svona þætti. Það treysta allir Ríkisendurskoðun. En þetta er spurning um hvort önnur stofnun eða önnur nefnd sé heppilegri til að rannsaka tiltekið mál.