152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:32]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mér finnst svo áhugaverð orðræða þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Guðrún Hafsteinsdóttir sagði áðan að það væri fullur vilji til að rannsaka þetta mál til hlítar — nú er ég að umorða — og að ef þörf yrði á því að fá rannsóknarnefnd í málið þá yrði svo sannarlega farin sú leið. Mig langar til að hv. þingmaður átti sig á því í hvaða stöðu hún er að setja okkur í stjórnarandstöðunni. Það er verið að biðja okkur um að treysta því bara sisvona að meiri hlutinn, sem hefur mikla hagsmuni af því að slá verndarhjúp um ráðherra sína, ríkisstjórn, muni taka þá ákvörðun þegar niðurstaða ríkisendurskoðanda kemur í hús: (Forseti hringir.) Já, heyrðu, við teljum að það sé þörf á því að fara þá leið að skipa rannsóknarnefnd. Það er það sem er verið að biðja okkur um að gera. (Forseti hringir.) Mér finnst ekki sanngjörn krafa að fara fram á það að við treystum ykkur bara.