152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[18:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður var að fjalla aðeins um fjárheimildirnar í kringum farsældarlögin og það er dálítið flókið að klóra sig í gegnum það hvaðan þær fjárheimildir koma. Í fjárlögum fyrir árið í ár eru rétt tæpar 800 milljónir settar í snemmtæka íhlutun. Það er bara ekki allt. Það var talað um 1.200 milljónir, minnir mig, í heildarkostnað fyrir nokkrum árum. Hver núverandi upphæð er veit ég ekki alveg. Hvort þetta sé fjármagn sem var þegar í málaflokknum á einhvern hátt eða hvort það sé hliðrun á fjárheimildum er bara frekar óljóst í fjárlagafrumvarpinu. Svo til hliðar við það horfir maður á að framkvæmdaáætlun í málefnum barna, þar kostar ýmislegt líka, fyrir árin 2018–2022, er að klárast í ár. En sú framkvæmdaáætlun hefur ekki verið kláruð. Þetta er bara óljóst þegar fjárlögin eru lesin. Maður hefði haldið, þar sem það er ákveðin stefna stjórnvalda að innleiða þessi farsældarlög, að það væri sett fram með skýrum hætti hvaðan fjármögnun kemur fyrir þessi verkefni, borið saman við kostnaðaráætlun miðað við lögin eins og þau eru sett fram. En það er bara ekkert svoleiðis augljóst að finna. Ég er í stólpavandræðum þegar ég er að reyna að grafa mig í gegnum bæði fjármálaáætlun og fjárlög varðandi það hver kostnaðurinn er í raun og veru þegar allt kemur til alls við einstaka atriði farsældarlaganna. Hv. þingmaður bendir hér á vandamál fyrir þingið sem á að samþykkja fjárheimildir til þess að framfylgja þessum lögum sem við samþykktum. Það er almennt vandamál líka en sérstaklega í þessum lögum.