152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[18:15]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það hefur misskilist þannig að ég hafi verið að tala illa um sveitarstjórnarmenn þessa lands þá skal ég taka það til baka. En ég sagði að ræða hv. þingmanns hefði verið bull. Og umrædd grein sem byggði á nákvæmlega sama bullinu og hv. þingmaður var með hér, um það að farsældarlögin væru ekki fjármögnuð — ég get ekkert annað en sagt að það sé bull. Þegar hv. þingmaður heldur því fram að ég sé að fara með fleipur þá bið ég hv. þingmann að líta í spegil. Fjármögnun þessara farsældarlaga var unnin með þeim hætti að við fengum hagfræðing til liðs við okkur sem starfaði með ráðuneytinu og með þverpólitískri þingmannanefnd sem Miðflokkurinn átti ekki sæti í á þeim tíma, af því að hann vildi ekki vera í henni og fullmanna hana áfram, vann ítarlega greinargerð um það í samstarfi við öll sveitarfélög og alla hagaðila hvað þeir teldu að þyrfti að fjármagna inn í þetta, bæði vegna sveitarfélaga og ríkisins. Síðan var reiknað út hvaða arðsemi við reiknuðum með því að þetta frumvarp myndi skila og hvenær hún færi að koma til baka bæði til ríkis og sveitarfélaga. Ég get sent hv. þingmanni þessar greiningar ef hann hefur áhuga á. Til þess að vera alveg viss þá réðum við hagfræðing sem hefur mikla þekkingu á félagsmálum og sveitarstjórnarmálum, Harald Líndal Haraldsson, sem hefur verið sveitarstjóri og starfað í félagsþjónustu lengi, til að yfirfara þetta og setja sig aftur í samband við öll sveitarfélög. Út úr því kom sú niðurstaða að til þyrfti á bilinu 1,5–2 milljarða inn í farsældarlöggjöfina og þeir peningar skiluðu sér allir. Þeir komu bæði inn til félagsmálaráðuneytis þáverandi og nú til mennta- og barnamálaráðuneytis og inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem hefur útdeilt honum til sveitarfélaganna. En þetta er fyrsti áfangi. Þess vegna hrærir þingmaðurinn öllu hér saman. Næsti áfangi eru úrræðin. Þarf fjármagn inn í þau? Já, og ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa talað hér um þau mál. En ég bið hv. þingmann að hræra ekki hlutunum saman og væna aðra um að vera að bulla.