152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Losun kolefnis í landbúnaði á Íslandi er metin út frá tveimur þáttum, annars vegar er það kolefnislosun frá framræstum jarðvegi og hins vegar losun sem verður vegna annarra þátta innan býlanna. Kolefnislosun frá framræstum jarðvegi er metin 100% hærri en aðrir þættir innan býlanna og vegur því þungt; svo þungt að margir halda því fram að kolefnisspor íslensks lambakjöts sé meira en innflutts lambakjöts frá Ástralíu, sem er auðvitað fráleitt enda þarf ekki nema hugsa það til enda til að sjá að það stenst enga skoðun.

Nýlega sendi Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri frá sér skýrslu sem byggir á rannsóknum sem gerðar voru á Norðurlandi á kolefnislosun frá framræstu landi. Niðurstöður þeirrar rannsóknar sýna að fullyrðingar sem haldið hefur verið á lofti á Íslandi árum saman, um losun koltvísýrings og annarra meintra gróðurhúsalofttegunda úr framræstu landi, eru langt frá því að geta staðist. Í skýrslunni segir að losun sem hér mælist verði að teljast lítil miðað við eldri mælingar sem gerðar hafa verið á framræstum, óræktuðum, lífrænum mýrum.

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að leggja í frekari rannsóknir á þessum málum hér á landi því nokkrar háværar fullyrðingar hafa flogið um langtímalosun koltvísýrings úr framræstu landi og mikilvægi þess að endurheimta það votlendi sem framræst hefur verið á undanförnum áratugum. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Til að kortleggja sem næst raunverulega langtímakolefnislosun í framræstu ræktarlandi á Íslandi þarf að gera átak í að mæla hana skipulega sem víðast.“

Það þarf að mæla hana skipulega og væntanlega út frá mismunandi jarðvegi og mismunandi landsvæðum. Það er mjög mikilvægt að frekari og stöðug vöktun fari fram á þeim þætti um allt land. Það er mikilvægt, ekki síst vegna þess að horft er til markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum.