152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Stjórnarmeirihlutinn hefur verið samstiga í möntrunni um að það þarf að horfa á það sem þau kalla stóru myndina í Íslandsbankasölunni, að ríkið hafi jú á innan við ári fengið 108 milljarða í sinn hlut við söluna. Þjóðin er hins vegar greinilega sammála því sem Viðreisn hefur alltaf sagt í þessu samhengi; það þarf að horfa á enn stærri mynd, mynd sem tekur líka með í reikninginn siðferðilega ábyrgð, siðferðilega ábyrgð stjórnvalda á því að vel takist til. Stjórnarmeirihlutinn segist sáttur við fjárhagslegu markmiðin sem náðust, segir minna um önnur markmið bankasölu hennar, þau sem varða almannahagsmuni, gegnsæi, jafnræði, traust. En kannski eiga þessi markmið ekkert heima í hinni stóru mynd ríkisstjórnarinnar. Söluandvirði upp á 108 milljarða kr. eru fjármunir sem má nýta í niðurgreiðslu á halla ríkissjóðs sem ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að vinna á frá upphafi stjórnarsamstarfsins, svo ekki sé talað um innviðafjárfestingu sem hefur verið vanrækt í tíð þessarar ríkisstjórnar. Því miður hefur ríkisstjórnin klúðrað þessu verkefni undir verkstjórn Sjálfstæðisflokksins. Ríkisstjórnin hunsaði siðferðilega hluta Bankasýslunnar með þeim fyrirsjáanlegu og eðlilegu afleiðingum að traust þjóðarinnar er rofið.

Herra forseti. Traust þjóðarinnar er ekkert. Í kjölfarið er sala á þeim hluta banka sem eftir stendur í eigu ríkisins fyrir bí og þar með sú 100 milljarða fjárfesting í innviðum og niðurgreiðslu skulda sem var fyrirhuguð til viðbótar. Og þetta eru sannarlega dýrkeypt mistök fyrir íslenskt samfélag. Ríkisstjórnin á eftir enn að svara því hvort afleiðingar mistakanna verði minni uppbygging innviða, skattahækkanir eða eitthvað annað.

En lærdómurinn er þessi: Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi til að selja ríkiseignir. Þar gleymist það lykilatriði sem Viðreisn hefur alla tíð lagt áherslu á þegar kemur að sölu ríkiseigna: Salan þarf að vera í þágu almennings, ekki útvalinna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)