152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Garðyrkjuskólinn á Reykjum var sjálfstæð stofnun á árunum 1939–2004 þar til sameining við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri átti sér stað. Sameiningin tókst aldrei almennilega og sambúðin oft erfið enda býður það því heim þegar starfsemin skiptist á milli landshluta og milli skólastiga. Landið að Reykjum er mikilvægt kennslu- og tilraunasvæði en kennslurými, gróðurhús og önnur húsakynni þarfnast mikils viðhalds. Húsunum hefur verið leyft að drabbast niður og nú er svo komið að umtalsverðra fjármuna er þörf til að bæta þar úr og blasir við að gera þarf fjármagnaða og tímasetta áætlun um viðhald og uppbyggingu. Garðyrkjuskólinn á Reykjum er ekki bara mikilvægur fyrir garðyrkjubæinn Hveragerði og Ölfus heldur skiptir starfsemin miklu ef stjórnvöldum er alvara að ná þeim loftslagsmarkmiðum sem sett hafa verið fyrir Ísland og alþjóðasamþykktir krefjast.

Á síðasta kjörtímabili var ákveðið að flytja Garðyrkjuskólann til Fjölbrautaskóla Suðurlands en það gleymdist að flytja fjármuni til FSu og gera stjórnendum þar fært að taka við rekstrinum. Það gleymdist að undirbúa yfirfærsluna og ganga frá lausum endum og nú er allt í uppnámi fyrir næsta skólaár. Kennurum og fulltrúum kennsluskrifstofu hefur verið sagt upp og deilur eru á milli ráðuneyta um hver eigi að gera hvað. Eftir standa starfsmenn með uppsagnarbréf í höndunum og ótrygg réttindi í óvissu og með svikin loforð ráðherra. Reynsla og þekking sem er nauðsynleg fyrir starfsemina, nemendur og atvinnulíf garðyrkjunnar hverfur með starfsfólkinu ef ekki er gripið til aðgerða strax.

Ég vil spyrja hv. þm. Guðrúnu Hafsteinsdóttur hvers vegna slíkt klúður gat átt sér stað og hvernig hún sem stjórnarþingmaður sé að beita sér fyrir skólann, starfsfólk, nemendur og starfsgreinarnar sem þurfa á þeim að halda.