152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Loksins hafa náðst langþráðir langtímasamningar milli Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sjúkratrygginga Íslands um rekstur hjúkrunarheimila. Um er að ræða samninga til þriggja ára og er heildarupphæð þeirra tæpir 130 milljarðar. Samningarnir kveða á um aukið fjármagn til hjúkrunarheimila og bætta þjónustu við íbúa. Auk þess á að efla þjónustu við þá einstaklinga sem þurfa hvað mest á umönnun að halda með auknum framlögum í útlagasjóð. Einnig er í samningnum tryggð aukafjárveiting til lítilla hjúkrunarheimila. Þá er ég sérstaklega ánægður með að í samningnum er kveðið á um að styrkja úrræði fyrir yngri einstaklinga sem þurfa á þjónustu hjúkrunarheimila að halda og þá sem glíma við geð- og fíknisjúkdóma.

Hér er um að ræða brýnt verkefni og ánægjulegt er að tekið sé vel utan um þennan hóp. Samningarnir eru við rekstraraðila allra þeirra 45 hjúkrunarheimilanna sem starfa víðs vegar um landið samkvæmt samningum við Sjúkratryggingar Íslands og eru unnir í góðri sátt. Samhliða samningunum hafa samningsaðilar samþykkt að setjast að borðinu með heilbrigðisráðuneytinu til að ræða þróun starfsemi hjúkrunarheimila með vinnuhópnum um endurskoðun á mats- og greiðslukerfi til hjúkrunarheimila.

Heilbrigðisráðherra hefur lýst yfir að hann muni beita sér fyrir því að settur verði á fót vinnuhópur undir stjórn fjármálaráðuneytisins um fyrirkomulag húsnæðismála hjúkrunarheimila almennt. Með þessum langþráðu samningum hafa náðst þýðingarmikil markmið um stöðugleika og fyrirsjáanleika í rekstri hjúkrunarheimila á næstu árum. Það eru gleðitíðindi.