152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Helga Þórðardóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Vegna villandi umræðu um samfélagsbanka hér á þinginu undanfarna daga hafði ég samband við vin minn Wolfram Morales í gær en hann er framkvæmdastjóri Sparkasse-bankans í Þýskalandi. Hann tjáði mér eftirfarandi: Sparkasse hefur 50 milljón Þjóðverja sem viðskiptavini. Þetta er ekki bara lítill, krúttlegur banki. Sparkasse-bankarnir og þýsku samvinnubankarnir hafa um 70–75% af markaðnum í Þýskalandi. Þýskir einkabankar, með Deutsche Bank í fararbroddi, hafa um 25% af markaðshlutdeildinni. Svo merkilegt sem það getur hljómað er hagnaður Sparkasse og samvinnubankanna meiri en einkabankanna. Það er augljóslega vegna þess að þeir borga ekki bónusa og eru ekki að borða gull og fara ekki um á einkaþotum. Þeir eru einfaldlega hagkvæmari. Það er augljóst að það er mikil samkeppni á þýska markaðnum vegna samfélagsbankanna. Því er ódýrt að vera viðskiptavinur banka í Þýskalandi. Tökum annað dæmi: Í Bretlandi eru fjórir einkabankar sem eru markaðsráðandi. Þeir stjórna allri verðlagningu á breska bankamarkaðnum. Þar er engin samkeppni frekar en á Íslandi. Þess vegna er bankaþjónusta dýrari í Bretlandi en í Þýskalandi, vegna skorts á samkeppni.

Almenningur á Íslandi vill ekki selja bankana en þrátt fyrir það er stefna núverandi ríkisstjórnar að einkavæða Íslandsbanka. Eftir sitjum við sem fyrr með einsleitt bankakerfi, bankakerfi með einsleita eigendastefnu og þá erum við komin með öll eggin í sömu (Forseti hringir.) körfuna og það er augljóslega brothætt. Fjölbreytni á markaði skapar stöðugleika.