152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Skilaboð Bankasýslunnar á opnum fundi í morgun eru eiginlega þessi: Þið verðið öll að læra af þessu. Fólk hefur einfaldlega ekki skilið hversu opið þetta lokaða útboð í rauninni var. Þessi málflutningur dæmir sig sjálfur en auðvitað er hægt að draga vissan lærdóm af bankasöluhneykslinu. Hann er sá að þetta er það sem gerist þegar við eftirlátum Sjálfstæðismönnum að stýra fjármálum og eignaumsýslu ríkissjóðs. Þetta er það sem gerist þegar Sjálfstæðismenn stýra för. Það er ekki farið eftir reglum eða þær sveigðar í vinnslu málsins og allt breytist einhvern veginn í leiðinni. Reglur sem miðast við fáa langtímafjárfesta leiða samt til þess að margir skammtímafjárfestar stinga í vasann hagnaði af bréfum sem þeir fengu að kaupa með afslætti. Þetta er ekki fyrsta svona fjármálahneykslið sem tengist stjórn Sjálfstæðismanna í fjármálum þjóðarinnar og heldur ekki það síðasta ef þeir fá áfram að halda um fjárráðin.

Herra forseti. Þetta er ekki náttúrulögmál. Það er alveg hægt að hugsa sér heiminn án þess að Sjálfstæðismenn ráði þar meira eða minna öllu, því að það er tvennt sem einkennir stjórnarhætti Sjálfstæðismanna: Það eru biðlistar og það eru afslættir. Biðlistar fyrir almenning, afslættir fyrir auðmenn, biðlistar fyrir aldrað fólk sem þarf á eðlilegri þjónustu að halda eftir langa ævi, afslættir fyrir auðmenn sem kaupa bréf í Íslandsbanka, biðlistar fyrir eldra fólk eftir eðlilegri heilbrigðisþjónustu, afslættir á veiðigjöldum fyrir auðmenn sem reka stórútgerðina. En þetta er ekki náttúrulögmál, herra forseti. Sjálfstæðismenn hafa ekki endilega neitunarvald um framlög til velferðarmála. Aðrir flokkar geta tekið saman höndum um stjórn landsins og í rauninni er ekkert því til fyrirstöðu að við gerum það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)