152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Erna Bjarnadóttir (M):

Herra forseti. Haustið 2020 samþykkti Alþingi skýrslubeiðni til Ríkisendurskoðunar sem fól í sér að taka upp tollaframkvæmd Skattsins gagnvart landbúnaðarvörum. Í ljós hafði komið mánuðina á undan verulegt misræmi í innflutningsmagni margra landbúnaðarvara til Íslands og tölum um útflutt magn sömu vara til Íslands frá nokkrum helstu viðskiptalöndum. Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu sinni í febrúar síðastliðnum og mér er kunnugt um að hún hafi alla vega verið til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Í henni kemur m.a. fram það álit Ríkisendurskoðunar að dregið hafi úr getu endurskoðunardeildar Skattsins til að fást við stærri og flóknari mál, sem hefur hindrað að tollyfirvöld geti með forvirkum hætti rækt hlutverk sitt sem skyldi. Þetta er nokkuð stórt sagt um eitt mikilvægasta stjórnvald landsins. Ríkisendurskoðun telur því að endurskipuleggja þurfi og efla tollasvið skattsins. Enn fremur beindi Ríkisendurskoðun því til Skattsins að vöruskoðun landbúnaðarafurða yrði gerð víðtækari og að viðverandi verkefni Skattsins. Þá taldi stofnunin að endurskipuleggja þyrfti tollasvið Skattsins og eftirlitsdeild Skattsins.

Herra forseti. Stjórnvöldum ber að framfylgja lögum og gæta jafnræðis borgaranna gagnvart þeim. Þeim ber líka að framfylgja milliríkjasamningum. Standi vilji til að þetta umhverfi sé með öðrum hætti en nú er þarf að gera slíkar breytingar með formlegum hætti, löggjöf eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. Ríkisendurskoðun taldi einnig gagnrýnivert með hvaða hætti skatturinn brást við athugasemdum hagsmunaaðila. Þetta tel ég líka að þurfi að taka alvarlega í stjórnkerfinu. Í framhaldi af þessu hyggst ég beina skriflegri fyrirspurn til fjármálaráðherra um þetta mál því að hér þarf að velta öllum steinum við.