152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það er ástæða til að vekja athygli Alþingis á því nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að það er ekki hægt að líta öðruvísi á en svo að svokallaður samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins sé úr gildi fallinn vegna vanefnda, ekki hvað síst af hálfu borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík. Reyndar var ljóst strax og þetta samkomulag var gert að þáverandi samgönguráðherra og þar með ríkisstjórnin öll hefðu látið borgarstjórann í Reykjavík plata sig. Það kom svo fljótlega á daginn að sá grunur reyndist réttur, a.m.k. tveir formenn skipulagsráðs Reykjavíkur hafa lýst því yfir opinberlega að það séu engin áform um að standa við þann hluta samkomulagsins sem ríkisstjórnin notaði til að réttlæta samkomulagið í heild, einkum 50 milljarða kr. fyrstu greiðslu í að uppfylla kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík um borgarlínu. Það er engu að síður ljóst að rekstur þessarar borgarlínu er í fullkominni óvissu þrátt fyrir þetta 50 milljarða kr. framlag í framkvæmdina. En svo bætist það við að borgarstjórn Reykjavíkur eða meiri hluti hennar hefur ítrekað tekið fram að ekki standi til að uppfylla samkomulagið í heild, eingöngu líklega borgarlínuhlutann af því. Og nú sjáum við í kosningastefnu, þar með talið augljóslega og auðvitað Samfylkingarinnar í Reykjavík, að með kosningunum ætla menn að staðfesta þetta, staðfesta að ekki verði staðið við samkomulagið. En hvað mun ríkisstjórnin gera? Hún mun væntanlega bara halda áfram að borga lausnargjaldið þrátt fyrir að lausnin sé ekki veitt.