152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

lengd þingfundar.

[15:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð lengdan þingfund. Ég hef gjarnan gaman af því að vera hér, ekki síst á kvöldin. Ég ætla að lýsa ánægju minni með það, ef það er uppleggið, að við komumst í 14. mál á dagskránni í kvöld. Það er þá dálítið nýtt. Það hefur ekki gerst ansi lengi að mál hafi hreyfst mikið. Það gerðist í gærkvöldi, sannarlega, þá komst aðeins skriður á málin, sem er mjög ánægjulegt því að hér eru ansi mörg mál sem ég trúi því að við séum sammála um að þurfi að fara í gegn; atvinnuréttindi útlendinga, við erum hérna með mál um sorgarleyfi og fleira sem ég trúi því að stjórnarandstæðingar jafnt sem stjórnarliðar séu tilbúnir til þess að ræða. Þannig að hér er margt undir í dag og ég á nú eftir að sjá það að liðleikinn verði slíkur hér í þingsal að við komumst í hið umdeilda mál nr. 14. En til er ég í umræðuna um það sem og önnur mál hér undir, enda eru þau góð og þurfa að komast til nefndar. (Gripið fram í.)