152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er ekki nema eðlilegt að Sjálfstæðismenn skilji þetta ekki. Ég er að segja að þetta er vandamálið sem ráðherra er að benda á, þetta er vandamálið sem hann telur að sé í þessu, þ.e. framkvæmd samninga sem gerðir eru við einkaaðila, ekki hvaða aðkomu hann hafði að málinu. Alveg eins og hann hefur bent á vandann með bílaleigu ríkislögreglustjóra o.s.frv., þar bendir hann á ákveðinn hlut. Þetta er mat ráðherra, á hvað hann bendir. Ég hef fulla trú á því að Ríkisendurskoðun vinni sína vinnu. Við erum að benda á það að fjármálaráðherra segir að þetta sé vandamálið. Hann lítur alls ekki í eigin barm á mögulega vanhæfni og klúður hjá sér. Hann bendir ekki á það. Hann segir ekki: Skoðið vinsamlegast söluna frá A til Ö, hjá öllum aðilum. Ef það væri það sem ráðherra væri að leggja upp með hefði ég ekkert út á þetta að setja, ekki neitt. (Forseti hringir.) En þarna bendir hann á gerð samninga við einkaaðila. Það er þarna hjá þessum söluaðilum (Forseti hringir.) og ráðgjöfum og mögulega Bankasýslunni o.s.frv., ekki hjá ráðherra. (Forseti hringir.) Ég hef fulla trú á því að Ríkisendurskoðun geri þetta af sinni stöku snilld. (Forseti hringir.) En ég geri athugasemd við þessar forsendur ráðherra.