152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:11]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil benda á að samkvæmt tilkynningu sem barst frá ríkisendurskoðanda um daginn þá byggir athugun hans á 2. mgr. 8. gr. laga um ríkisendurskoðanda sem er gjaldtökuheimild og snýst um að ríkisendurskoðandi geti tekið gjald fyrir ákveðnar athuganir sem er ráðist í. Mér þætti fróðlegt að heyra það frá þeim sem tala hvað mest um þennan þátt málsins og lýsa hvað yfir gríðarlegri ánægju með að Ríkisendurskoðun sé að skoða málið og að frumkvæðið komi með þessum hætti frá fjármálaráðherra. Mér þætti athugavert að heyra skýringar á þessu og hvort þingmenn viti hvernig þessari gjaldtöku verði háttað. Eins kemur fram í greinargerð frumvarps til laga um ríkisendurskoðanda, í athugasemdum um þetta tiltekna ákvæði, að gert sé ráð fyrir samráði við forsætisnefnd um þessar athuganir. Mig langar að fá að spyrja hæstv. forseta Alþingis í hvaða farvegi þetta samráð sé.