152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:14]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Mig langaði að taka aðeins hlé frá umræðum um Íslandsbanka og tala um dagskrá dagsins í dag og nota tækifærið af því að hér inni eru bæði forseti og hæstv. dómsmálaráðherra. Á dagskrá dagsins í dag er mál sem á ekki að fara á milli mála að stjórnarandstaðan hefur lýst miklum efasemdum og andstöðu við, 14. dagskrármálið, um alþjóðlega vernd. Ég verð bara að segja að mér finnst það mjög slæmt að í viku sem er stutt, þar sem við erum að reyna að afgreiða ákveðin mál sem eru jafnvel dagsetningarmál, sé verið að setja slíkt frumvarp á dagskrá. Það mun einungis leiða til þess að ekkert hreyfist þar til það mál hefur verið tekið af dagskrá.

(Forseti (BÁ): Dagsetningarmál eru fremst á dagskránni.)