152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:17]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla svo sem ekkert að orðlengja þetta mikið. Ég heyri að fólk þarf voða mikið að vera á fundum í dag. En af því að hv. þm. Óli Björn Kárason talaði hér um ómerkilegan málflutning þá langar mig á þeim nótum að lýsa því yfir hversu miður mér þykir það að stjórnarþingmenn, í vörn sinni gegn þeirri eðlilegu kröfu að hér verði rannsóknarnefnd falið að fara ofan í saumana á þessu máli, skuli brigsla þingmönnum, þar með talið mér væntanlega sem tala fyrir rannsóknarnefndinni, um að vantreysta, tala niður, tala illa um, sýna vanvirðingu hinni ágætu stofnun, Ríkisendurskoðun. Ef þetta er röksemdafærsla sem stjórnarþingmönnum þykir rétt og góð þá skil ég af hverju menn geta ekki selt banka svo sómi sé að.