152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:18]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég kannast bara ekki við að nokkur einasti þingmaður hafi sagst vantreysta Ríkisendurskoðun. Hins vegar veltum við fyrir okkur hverjar valdheimildir Ríkisendurskoðunar eru til að fara í þetta mál og rannsaka það. Ég get hins vegar sagt það að ég vantreysti Fjármálaeftirlitinu algerlega. Saga þess er blóði drifin frá því fyrir hrun og hefur ekkert batnað eftir það. Þannig að því vantreysti ég algerlega og ætla ekkert að fara í felur með það. Þetta snýst um traust, þetta snýst um að endurbyggja traust. Og til að komast hjá öllum þessum umræðum og öllu því sem búið er að eiga sér stað nú á undanförnum dögum til þess einfaldlega að fá niðurstöðu sem allir treysta þarf að skipa rannsóknarnefnd með víðtækar valdheimildir til að fara í þetta mál. Það er ekki þannig að Ríkisendurskoðun hafi sömu heimildir og slík rannsóknarnefnd myndi hafa. Ég frábið mér bara svona málflutning vegna þess að ef einhver er að reyna að rugla almenning þá eru það þeir sem eru með málflutning sem þennan.