152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:25]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég ætla að kalla aftur eftir því að þingmenn meiri hlutans útskýri fyrir okkur á einhvern skynsamlegan máta hvers vegna það má ekki skipa rannsóknarnefnd Alþingis. Þá vil ég leiðrétta það sem kom fram í máli hv. þm. Jódísar Skúladóttur hér áðan varðandi það að meiri hlutinn hefði ekki hafnað því. Það er ekki rétt. Við höfum þegar boðið meiri hlutanum að klára rannsókn ríkisendurskoðanda að því gefnu að hægt verði að skipa rannsóknarnefnd að frumkvæði minni hlutans í kjölfarið. Þessu var hafnað. Þá er það alveg ljóst að við höfum fært mjög skýr og mjög eðlileg rök fyrir því að það verði skipuð rannsóknarnefnd. Við höfum útskýrt hvers vegna það þarf að skipa rannsóknarnefnd og það snýst um valdheimildir. Ég verð að segja það sama og hér hefur verið sagt, að ég frábið mér að verið sé að tala um að við séum að lýsa yfir vantrausti á Ríkisendurskoðun. Það hefur aldrei verið gert. (Forseti hringir.) Það hefur enginn hér gert. Það er heldur ekki þannig að það þurfi einhvern veginn að tæma allar rannsóknarheimildir í heiminum áður en rannsóknarnefnd er skipuð. (Forseti hringir.) Það var ekki gert þegar hér var skipuð rannsóknarnefnd eftir hrun. Þess þarf ekki í þetta skiptið. Það er fyrirsláttur, það eru tafir. (Forseti hringir.) Ég krefst þess að meiri hlutinn komi hingað upp og útskýri (Forseti hringir.) hvers vegna þau vilja ekki sjá rannsóknarnefnd Alþingis í þessu máli.