152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:26]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og ég fór yfir áðan þá byggir athugun Ríkisendurskoðunar á gjaldtökuheimild og samkvæmt lögskýringargögnum þeirrar heimildar er gert ráð fyrir samráði við forsætisnefnd, sem hæstv. forseti Alþingis hefur nú staðfest að hefur ekki átt sér stað. Nú má vel vera að það hafi skapast einhvers konar venja, að ráðherrar óski eftir stjórnsýsluúttekt á ákveðnum þáttum, á ákveðnum stofnunum o.s.frv., en ég held að það hljóti allir að sjá að það er einfaldlega ekki traustvekjandi og ekki góður bragur á því að sá aðili sem sjálfur hafði forgöngu um þessa bankasölu — að það fari fram einhvers konar athugun í raun á þeim forsendum sem hann sjálfur óskar eftir. Lög um ríkisendurskoðanda eru mjög skýr um það hvaðan heimildirnar til að eiga frumkvæði að svona athugun koma. (Forseti hringir.) Það er frá þinginu. Sá farvegur er í miklu fastari (Forseti hringir.) skorðum en þessi sem einhver venja hefur hugsanlega skapast um. Þetta snýst því ekki bara um það sem nákvæmlega stendur í lögunum (Forseti hringir.) heldur líka traust.