152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:33]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mér finnst leiðinlegt að heyra að hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni hafi fundist fundurinn okkar í morgun í fjárlaganefnd einskis verður og einnig leiðinlegt að heyra hv. þm. Guðbrand Einarsson lýsa því að ekkert hafi komið út úr þeim fundi. Ég verð að vera ósammála því. Mér fannst fundurinn í fjárlaganefnd í morgun mjög gagnlegur og ég vil hvetja fólk þarna úti sem vill fræðast um bankasöluna til að hlusta á fundinn og lesa greinargerð Bankasýslunnar. Það er mikilvægt að muna í þessu að stóra málið er auðvitað að gæta hagsmuna ríkisins, að gæta að þeirri eign og þeim fjármunum sem felast í bankanum. Það var þess vegna mjög ánægjulegt að heyra að það seldist fyrir hærri upphæðir, það komu meiri peningar inn í ríkiskassann en upphaflega hafði verið áætlað. Með því er ég ekki að segja að ég sé sátt við allt sem þarna kom fram. Það kom einmitt svolítið fram þarna sem við þurfum að skoða frekar, það sem Fjármálaeftirlitið er að skoða. Þess vegna er svo mikilvægt að Fjármálaeftirlitið klári sínar rannsóknir (Forseti hringir.) og á sama tíma að Ríkisendurskoðun vinni sína rannsókn og við fáum allt þetta upp á borðið. (Forseti hringir.) Við eigum að spyrja spurninga og fá þau svör, en við verðum líka að kunna að meta þá fundi og þau svör (Forseti hringir.) sem við fáum og taka tillit til þeirra upplýsinga sem liggja fyrir.