152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:34]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég kem hér til að taka undir með hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur og spyrja: Hver eru rökin fyrir því að vilja ekki skipa rannsóknarnefnd Alþingis? Við sem hér sitjum viljum rök. Þjóðin vill rök. Ég velti fyrir mér: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að byggja aftur upp traust, traust þjóðarinnar og traust stjórnarandstöðunnar, traust þingsins? Er ríkisstjórninni ekki umhugað um að fá aftur það traust sem þau hafa greinilega misst, alla vega í ljósi nýrrar skoðanakönnunar? Og ég velti því fyrir mér: Hvaða ábati er það fyrir þau að skipa ekki rannsóknarnefnd og sýna að farið var vel að öllu eða að öllu hafi verið gætt? Ég skil bara ekki alveg hvers vegna.