152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[17:02]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að maður geti ekki annað en fagnað því að sett séu lög um raunverulega eigendur og hertar ýmsar reglur sem varða hryðjuverkastarfsemi og fjármálagjörninga sem eru mútur eða peningaþvætti eða eitthvað þess háttar. En ég hef oft haft það á tilfinningunni frá hruni þegar farið var að herða þetta að allar herðingar beinist í rauninni fyrst og fremst að venjulegu fólki, þær komi rosalega mikið niður á venjulegu fólki sem er bara að kaupa sér húsnæði, lifa sínu venjulega lífi, er ekki með mjög miklar tekjur. Það eru miklar kröfur á það. Lögaðilar og þeir sem eru með ófjárhagslegan tilgang eins og húsfélög og annað slíkt eru oft aðilar sem þurfa að gangast undir mjög strangar reglur og mér finnst áherslan vera oft á röngum stað. Ég þurfti t.d. að skrá mig sem raunverulegan eiganda Hagsmunasamtaka heimilanna, sem er eiginlega algjörlega fáránlegt dæmi. Ég er ekki eigandi þessara samtaka og verð aldrei. En þetta varð að gera. Þetta eru samtök sem hafa lítið fé til umráða og það eru til önnur samtök en þessi. En á sama tíma þurfa t.d. bankar í einkaeigu ekki að gefa upp raunverulega eigendur. Við vitum ekki enn hverjir eru raunverulegir eigendur Arion banka. Það er ekki ljóst. Þeir eru undanþegnir þessari reglu en það er virkilega þar sem skiptir máli að vita þetta. Hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson virðist hafa kynnt sér (Forseti hringir.) þetta frumvarp vel. Ég sé ekki sjálf að þetta breytist hér en kannski að hann geti svarað mér.