152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[17:04]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er dálítið athyglisvert að átta sig á því að regluverkið í kringum raunverulega eigendur krafðist þess aldrei að húsfélög væru skráð, hverjir væru eigendur þeirra, né frjáls félagasamtök. Ástæðan fyrir því að það þurfti að skrá þau var að í reglugerð var sagt að þeir sem væru skráðir í fyrirtækjaskrá Skattsins þyrftu að gefa upp raunverulega eigendur. Sannleikurinn er sá að eina leiðin til að fá úthlutað kennitölu fyrir félagasamtök eða húsfélag, þú getur ekki opnað bankareikning nema vera með kennitölu, var að skrá félagið til Skattsins og sú skráning endaði í fyrirtækjaskrá þó að ekki væri um fyrirtæki að ræða. Þarna var verið að oftúlka vegna þess sem tölvukerfið sagði, við vorum að nota sama tölvukerfi undir húsfélög og fyrirtæki.

Ég er algerlega sammála hv. þingmanni að það að raunverulegir eigendur bankanna skuli ekki vera skráðir sé alger tímaskekkja. En það er a.m.k. þannig með þessa tilskipun að verið er að tækla eignarhaldsfélögin sem eru verkfæri þeirra sem efnaðri eru til þess að fela hvað þeir eru að gera.