152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[17:08]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni. Það er líka athyglisvert að hugsa til þess af hverju verið er að flýta þessu frumvarpi hér. Af hverju er það dagsetningarmál sem þarf að klára? Jú, það er vegna þess að íslenska ríkið hefur verið áminnt af viðkomandi eftirlitsstofnunum innan EFTA og Evrópusambandsins fyrir að hafa ekki innleitt þessa reglugerð nógu hratt. Það er kannski þar sem við lendum á ákveðnum vegg. Það er vel þekkt að það er dálítill hali eftir af innleiðingum og reglugerðabunki sem á eftir að laga að íslensku umhverfi og á eftir að fara með í gegnum þetta ferli. Við sem sitjum í utanríkismálanefnd fáum alltaf yfirlit yfir það hverju er verið að vinna í. En það er að sjálfsögðu þannig að ríkisstjórnir hverju sinni setja forgang á þau mál sem þær vilja að fari áfram. Það getur náttúrlega þýtt það að vera ekki með of flóknar reglur fyrir þá sem eiga endalaust af peningum, og ekki forgangsraða að laga það, en því er ekki forgangsraðað að laga reglur sem íþyngja almenningi. Mig langar til að fá að tala aðeins meira um það og óska eftir því að fara aftur á mælendaskrá.