152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[20:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hv. þingmaður kom inn á það í fyrri hluta ræðu sinnar að hún hefði efasemdir um persónuverndarþátt málsins og upplýsingaflæði á grundvelli þeirra heimilda sem þar eru veittar. Hv. þingmaður tilgreindi sérstaklega að hann teldi málið það mikið til bóta að hann vildi ekki gera athugasemdir við þetta tiltekna atriði að sinni eða breytingartillögur. Gæti hv. þingmaður farið aðeins yfir það með hvaða hætti hann sæi þessu best fyrir komið? Við þekkjum auðvitað mjög skýra afstöðu Pírata í þessum efnum, hvað persónuverndarmál varðar. Hvers vegna er réttlætanlegt, ef svo má segja, að gefa eftir gagnvart þessum hópi hvað það varðar? Ég spyr líka hvort það að horfa á þetta með aðeins öðrum hætti en iðulega er gert sé einhver stefnubreyting Pírata eða hvort þetta einskorðist við þau tilteknu mál sem við fjöllum um hér í dag.