152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[20:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég sé hér umsögn Persónuverndar frá síðasta þingi, um mat á áhrifum á persónuvernd. Í niðurlagi þeirrar umsagnar, þegar málið var síðast lagt fram, segir að ekki verði séð að mat á áhrifum frumvarpsins á persónuvernd hafi verið hluti af almennu áhrifamati í tengslum við samþykkt þess og vísað er í reglugerð ESB.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Persónuvernd telur að nauðsynlegt sé að framkvæma slíkt mat af hálfu löggjafans, meðal annars með hliðsjón af þeim athugasemdum sem stofnunin hefur gert við frumvarpið. Forsendur matsins og niðurstöður þess þyrftu að koma fram í lögskýringargögnum.“

Nú verð ég viðurkenna að ég hef ekki rannsakað þetta gagnvart málinu hingað til en ég veit að hv. þingmaður er vel lesinn í þessum efnum. Virðist þessi framkvæmd hafa átt sér stað, þetta mat, frá því að málið var lagt fram fyrir ári? Auðvitað hefði ég átt að spyrja framsögumann meiri hluta nefndarinnar en ég missti af því tækifæri og ég velti þessari spurningu því upp hér og nú.