152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[20:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Fyrst vil ég segja að ég tek undir það sem hv. þm. Jódís Skúladóttir kom inn á í ræðu sinni og sem hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir mundi orðrétt, sem ég mundi ekki, efnislega það að við getum ekki tekið á móti öllum, við ráðum ekki við það. Ég held að það sé staðan sem við stöndum frammi fyrir. Þess vegna eigum við að reyna að gera þetta eins vel og við getum og nýta þá fjármuni sem við nýtum til þessa málaflokks eins vel og kostur er. Ég held að það verði gert best öðruvísi en með þeirri nálgun sem hér er teiknuð upp.

Varðandi tölfræðina og fjöldann sem hv. þingmaður kom inn á þá held ég að það sé ekki gripið úr lausu lofti. Þetta eru nú bara tölur frá Útlendingastofnun þannig að ég held að þær séu býsna vel grundaðar. Það má vel vera að mat á ástæðum fyrir komu hingað sé í lausu lofti og það er sannarlega atriði sem ástæða er til að kafa ofan í. Við ættum auðvitað að vera búin að gera það fyrir löngu síðan. Ég held að hvar sem menn standa í þessari umræðu séu meiri upplýsingar betri en minni þannig að ég bara tek undir það að við ættum að reyna að gera vel í þeim efnum að bæta þekkingu á þeim þáttum. En tölfræðin er nokkuð vel grunduð hvað varðar fjölda umsókna hér á landi.