152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[20:54]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi. Með því er verið að jafna þá þjónustu sem við veitum fólki sem hingað kemur, óháð því hvort það er að koma hingað sem kvótaflóttamenn eða umsækjendur um alþjóðlega vernd. Eins og hv. þm. Bergþór Ólason benti á fyrr í kvöld þá hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að geta starfað við hjálparstarf tengt flóttamönnum víða um heim og hef því náð að upplifa það að sjá þær aðstæður sem fólk er að flýja, það slæma ástand sem er í mörgum þeim löndum sem flóttamenn sem hingað koma eru að flýja. Ég hef líka fengið að sjá þær aðstæður sem fólk sem er á flótta upplifir, hvort sem það er í flóttamannabúðum eins og þeim sem fyrirfinnast á mörgum stöðum í heiminum eða á milli flóttamannabúða og á leiðinni til þeirra landa sem fólk vill reyna að sækja um alþjóðlega vernd í. Það sem sú reynsla að hafa upplifað allt þetta hefur veitt mér er að fá mun meiri skilning á því af hverju það er mikilvægt að við tökum vel á móti fólki. Það má ekki verða þannig að við förum að flokka fólk niður í mismunandi hópa og sýna sumum hópum ákveðna tegund af mannúð vegna þess hvaðan þeir koma eða jafnvel hvernig litaraft þeirra er og fara svo öðruvísi með aðra.

Mig langar líka að reyna að leiðrétta aðeins misvísandi umræðu hjá hv. þingmönnum sem hafa komið hér á undan frá Miðflokknum. Talað er um að við þurfum að taka vel á móti því fólki sem kemur í gegnum hið formlega kerfi Sameinuðu þjóðanna. Hið formlega kerfi Sameinuðu þjóðanna er þannig að við tökum á móti ótrúlega fáu fólki á hverju ári. Það er meira að segja þannig að á tímabilinu 1956–2016, sem er 60 ára tímabil, tókum við aðeins við 549 manns sem kvótaflóttafólki. Sem betur fer hefur því aðeins fjölgað. Árið 2017 tókum við við 47, 52 árið 2018 og 2019 voru það 74. Mér tókst ekki að finna neinar tölur fyrir árið 2020, sennilega vegna þess að heimurinn var í Covid og fáir komu en ef tölurnar sem ég fann fyrir 2021 eru réttar voru það 57 manns. Hvaðan kom þetta fólk? Jú, þetta fólk kom frá Ungverjalandi, Júgóslavíu, Víetnam, Póllandi, Krajina-héraði sem er mitt á milli Serbíu og Króatíu, Kósóvó, Kólumbíu, Írak, Afganistan, Zimbabwe, Úganda, Kamerún og Sýrlandi. Þaðan höfum við tekið á móti kvótaflóttafólki. Ætlunin var að taka á móti miklu fleirum á síðasta ári en Covid setti strik í þann reikning og spurningin er hversu mörgum við tökum á móti á þessu ári sem kvótaflóttamönnum. Þess skal getið að af þeim sem komu í fyrra voru 22 sem komu í desember 2021 í sérstöku átaki íslensku ríkisstjórnarinnar til að taka á móti flóttafólki frá Afganistan, eftir að talibanar tóku þar völdin, sem hafði bein tengsl við Ísland.

Af hverju fer fólk ekki bara í gegnum kvótaflóttafólkskerfi Sameinuðu þjóðanna? Jú, það er nefnilega þannig að það eru bara 27 ríki í heiminum sem taka á móti flóttamönnum í gegnum Sameinuðuþjóðakerfið og reyndar aðeins 25 af þeim sem í dag hafa formlegan samning. Á sama tíma um mitt síðasta ár, og það er þá fyrir Úkraínukrísuna, voru 84 milljónir manna á flótta í heiminum. Ég hef farið í flóttamannabúðir, t.d. Dadaab-flóttamannabúðirnar í Norður-Kenýa þar sem tæp hálf milljón manns býr, margir hverjir sem hafa búið þar síðan 1991 og hafa flúið stríð í Sómalíu og fleiri nágrannalöndum. Þaðan fara einungis hundruð á hverju ári í gegnum kvótaflóttafólkskerfið. Fólk er búið að lifa þarna í áratugi í von um að komast eitthvað annað. Þannig að þegar við tölum um að við viljum fá fleiri kvótaflóttamenn en helst enga hælisleitendur þá er vert að hafa þetta í huga.

Og hvaða þjónusta er það nú sem við erum að veita þessum kvótaflóttamönnum sem hingað koma, sem við erum að tala um að veita líka fólki sem leitar eftir vernd? Jú, það er einhvers konar framfærsla fyrsta árið. Samt er krafa um að fólk sé virkt á atvinnumarkaði. Ef það eru foreldrar þá fá þau aðstoð við hluti eins og leikskóla, skólamáltíðir, frístundaheimili og jafnvel íþróttir og tómstundir en það greiðist einungis í níu til ellefu mánuði. Þau fá strætókort, þau fá aðstoð við íslenskukennslu, þau fá aðstoð við húsaleigu en einungis í tvo mánuði á meðalverði. Og sími og internet, jú það er greitt í einn mánuð fyrir hverja fjölskyldu. Allt að 100.000 kr. eru greiddar fyrir hvern einstakling fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf. Og ef viðkomandi flóttamaður þarf gleraugu þá fær hann 30.000 kr. Það eru eitthvað örlítið fleiri hlutir, sálfræðiaðstoð og fleira. Þetta er nú allt saman sem við erum að tala um að veita sem þjónustu og ef það er ekki hreinlega mannúð að veita þessa þjónustu þá veit ég ekki hvað mannúð er. Fyrir einstakling, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu sem komu í svörum í fyrra á þingi, þá er kostnaður fyrir hvern einstakling í kvótaflóttafólkskerfinu ef viðkomandi er einhleypur um 5,8 milljónir, ef hjón eða fólk í sambúð án barna koma þá eru það um 4,3 milljónir á mann og ef fjölskyldur koma með börn þá eru það um 3,3 milljónir á mann. Þetta er miðað við að um 10–25 einstaklingar séu að koma sem kvótaflóttamenn sem er algengur fjöldi. Þannig að það eru ekki einhverjar risaháar upphæðir sem eru bak við það að veita mannúðlega aðstoð.

Það virðist líka vera voða algeng afsökun fyrir því að vera á móti því að taka vel á móti fólki að hingað hljóti að koma alveg heill her af fólki af því að við ætlum að veita því mannúðlega þjónustu þegar það kemur hingað. Þjónustan sem hefur verið veitt hefur aukist, hún hefur verið meiri, en sannleikurinn er sá að flóttamönnunum er ekki endilega að fjölga mikið. Það breytist aðallega hvaðan þeir koma. Og það er dálítið athyglisvert að horfa á það vegna þess að ef við skoðum tölurnar fyrir síðasta ár þá kom langstærsti hópurinn frá Venesúela. Það gæti komið mörgum á óvart. Af hverju er fólk frá Venesúela að koma? Jú, þar hefur efnahagurinn hrunið algerlega, mikil ógnarstjórn er í landinu og milljónir manna hafa flúið land en vegna þess að Venesúelabúar þurfa ekki vegabréfsáritun til Íslands og þeir koma koma með tengiflugi frá Bandaríkjunum og stoppa ekki í neinu Dyflinnarreglugerðarlandi þá er Ísland vinsæll valkostur. Ef við vildum stoppa þetta gætum við á auðveldan máta kannski skoðað það að setja á vegabréfsáritun. Hingað hefur líka komið fólk frá Palestínu. Af hverju ætli Palestínumenn sækir til Íslands? Jú, við vorum eitt af fyrstu löndunum til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu og fólk hefur heyrt góða hluti um Ísland, eða eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir benti á hér áðan, fólk er að sækja til Íslands vegna þess að það hefur heyrt að hér séu mannréttindi.

Tölurnar fyrir þetta ár, það sem það sem af er ári, eru ekkert ósvipaðar síðasta ári. Fyrir utan Úkraínu þá er einmitt Venesúela í öðru sæti og svo Palestína þar á eftir. Hv. þingmenn Miðflokksins notuðu upplýsingar um að hér væri tekið á móti miklu fleira fólki heldur en á Norðurlöndunum, margfalt fleira. Viti menn, þegar kemur að því að taka á móti fólki þá vinnum við það auðvitað á höfðatölu eins og allan annan samanburð í heiminum. Við erum alltaf með hæsta fjölda per fjölda, per höfðatölu. Við vinnum þann leik alltaf. Bara til að gefa ykkur hugmynd þá sóttu 1.140 um í Danmörku árið 2020, 1.460 í Finnlandi, 630 á Íslandi, 1.340 í Noregi, 13.630 í Svíþjóð og í OECD-löndunum voru umsóknirnar um alþjóðlega vernd tæpar 1,3 milljónir. Þannig að já, við erum eflaust með hæsta ýmislegt miðað við höfðatölu, eins og þetta, en sannleikurinn er sá að við tókum við brotabroti af því sem t.d. Svíþjóð tók á móti. Við getum spurt okkur: Af hverju er fólk ekki að fara til Danmerkur og Noregs t.d.? Jú, það gæti haft eitthvað að gera með það að þjóðernissinnaðir flokkar hafa fengið meiri og meiri ítök í þeim löndum og því sækja færri þangað og færri fá aðgang.

Það er auðvelt að tala um tilhæfulausar umsóknir. Það er auðvelt að tala um eitthvert aðdráttarafl, að það að við veitum mannúðlega þjónustu geri Ísland allt í einu að vinsælasta kostinum fyrir fólk sem er að flýja stríð. Aðdráttaraflið sem Ísland hefur er það að við erum þekkt erlendis sem land mannréttinda, jafnréttis, réttinda fyrir kynsegin og hinsegin fólk. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að fólk kemur til Íslands, ekki að Ísland lendi allt í einu í einhverjum bæklingum manna sem eru að flytja fólk á milli landa. Reyndar eru það ekkert allir sem eru að borga einhverjum fyrir að koma hingað. Við sjáum t.d. að mjög margir af Úkraínumönnum eru að fljúga hingað einfaldlega sjálfir. Við sjáum líka þetta með Venesúelabúana. Jú, að sjálfsögðu er líka verið að stunda flutning og glæpamansal. Þá spyr ég bara: Viljum við frekar að fólkið lendi í klóm þeirra glæpamanna og lendi í því að vera kannski selt í ánauð eða í vændi eða annað? Og það svarar kannski spurningu margra: Af hverju koma svona margir einhleypir karlmenn sem flóttamenn? Það er góð ástæða fyrir því. Margir þeirra koma vegna þess að þeir vilja ekki leggja fjölskyldu sína í þá hættu að vera á flótta. Viðkomandi aðilar koma því til landsins og fara svo í fjölskyldusameiningarferli til að fá restina af fjölskyldunni.

Frú forseti. Það er margt að skoða hér. Ef hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fengi að ráða þá heyrðist mér hann helst vilja taka upp breska kerfið og senda alla beint til Rúanda eins og breska þingið tók ákvörðun um fyrr í dag. En ef hv. þingmaður myndi lesa það bréf sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sendi til breskra ráðamanna í dag þá myndi hv. þingmaður sjá að þar er breska þinginu bent á að þetta sé brot á alþjóðlegum samþykktum um flóttamenn, þetta sé brot á mannúðarlögum og þetta sé auðveldasta leiðin til þess að brjóta niður kvótaflóttafólkskerfið sem hv. þingmaður var þó að tala um að best væri að nýta. Það er því von mín að við fylgjum svo sannarlega ekki frændum okkar og fyrrum lénsherrum í Danmörku né fyrrum óvinum okkar í þorskastríði í Bretlandi í því að senda fólk úr landi til landa sem eru tilbúin að nýta sér flóttamenn sem gjaldeyristekjur.