152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög gagnleg ræða vegna þess að hv. þingmaður talaði umbúðalaust, dró reyndar allt aðrar ályktanir en ég, en var ekki að reyna að fela afstöðu sína til málaflokksins á sama hátt og mér hefur þótt sumir þingmenn gera í fyrri umræðum um þessi mál, ekki hvað síst ráðherrann sem lagði það fram. En vegna þess hversu afdráttarlaus hv. þingmaður var og tæpti á mörgu þá er ég búinn að skrifa hjá mér miklu meira en ég næ að komast yfir í stuttu andsvari en mun gera margt af þessu að umtalsefni hér í ræðu minni á eftir eða síðar í kvöld.

Ég vil þó byrja á því að nálgast þetta út frá stóru myndinni, ef við getum kallað það það, og spyrja hv. þingmann, í ljósi afstöðu hans, sem hann margítrekaði og lýsti á ýmsan hátt, um það að okkur bæri skylda til að taka á móti að því er virtist öllum sem kæmu hingað frá löndum sem eru fátækari en Ísland: Hvar, ef einhvers staðar, myndi hv. þingmaður draga mörkin? Er einhver fjöldi sem yrði til þess að hv. þingmaður segði að Ísland gæti ekki með góðu móti tekið á móti fleirum? Ef sú er ekki raunin eða ef hv. þingmaður telur að við getum tekið við hundruðum þúsunda — af því að það eru sannarlega hundruð þúsunda, það eru milljónir, það eru hundruð milljóna í heiminum sem gætu örugglega hugsað sér að búa á Íslandi frekar en í eigin landi, þetta er gott land með mikið aðdráttarafl eins og hv. þingmaður sagði — ætlar hv. þingmaður þá ekki að segja stopp á neinum tímapunkti hvað varðar flutning fólks til landsins?